Vilja að RARIK kosti verkefnastjóra á Seyðisfirði

Fulltrúar Seyðisfjarðarlistans í bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar telja óásættanlegt að kostnaður og þungi vinnunnar af umbreytingum við húshitun í bænum lendi á bæjarbúum. RARIK hefur tilkynnt um lokun fjarvarmaveitu fyrir árið 2019.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem bæjarfulltrúarnir, Elfa Hlín Pétursdóttir og Þórunn Hrund Ólafsdóttir, sendu frá sér í gærkvöldi.

Þar rekja þær ferli málsins og aðkomu bæjarstjórnar að því en staðan var fyrst kynnt bæjarstjórn seint síðasta vetur. Málin hafi aftur verið rædd og ákveðið að boða til íbúafundar, sem haldinn var síðasta fimmtudag.

„Bæjarstjórn ákvað að bíða eftir þeim fundi sem hugsanlega var ekki rétt ákvörðun. Í september barst bréf í öll hús frá RARIK og við sem bæjarfulltrúar vorum ekkert meira inn í þeim áformum fyrr en það,“ segir í yfirlýsingunni.

Málið hafi ekki verið rætt í bæjarráði í sumar en tekið upp í bæjarstjórn í september. Örvar Jóhannsson, fulltrúi B-lita, lagði þar til stofnun starfshóps sem var samþykkt. Bæjarráði var falið að útfæra tillöguna og fól það atvinnu- og framtíðarnefnd.

Örvar hefur síðan sagt sig frá trúnaðarstörfum fyrir bæinn, meðal annars vegna óánægju með afgreiðslu bæjarráðs á tillögunni.

„Það okkar skilningur að þar með væri búið að koma málinu í þann farveg sem við sáum fyrir okkur. Hugsunin var sú að atvinnu – og framtíðarmálanefnd myndi kalla til sín þá aðila sem hún þyrfti og hefðu til þess besta þekkingu. Þetta var að okkar mati eðlileg afgreiðsla og í anda bókunar Örvars,“ segja Elfa og Þórunn um afgreiðslu ráðsins.

Óásættanlegt að kostnaður lendi á neytendum

Þær segja það líka þeirra skilning að eftir íbúafundinn færi af stað frekari vinna við að leysa úr stöðunni. Forstjóri RARIK var meðal þeirra sem á fundinum töluðu fyrir að að Seyðfirðingar tækju sig saman við að kaupa inn og setja upp varmadælur, sem er ein þeirra lausna sem mælt hefur verið með.

„Það er okkar sýn að miðlæg lausn sé mun vænlegri kostur heldur en að hver fasteignaeigandi þurfi að taka ákvörðun um og framkvæma þá leið sem honum hugnast best fyrir framtíðar húshitun. Um leið er þó rétt að benda á að mögulega eru hér tækifæri til nýjunga í húshitun byggðarlaga á köldum svæðum til hagsbóta fyrir umhverfið og neytendur til langframa.

Best væri að Rarik myndi kosta starf verkefnastjóra til að kanna raunhæfar lausnir og leiðir til húshitunar og fylgja eftir innleiðingu þeirra þegar að því kemur.

Það er óásættanlegt að kostnaður lendi á neytendum við þessar breytingar og það er ætlun okkar að róa að því öllum árum að svo verði ekki,“ segir í yfirlýsingu bæjarfulltrúanna.

Í bókun bæjarráðs frá því á föstudag er lagt til að unnið verði í samstarfi við RARIK um aðgerðir og skipulag vegna lokunarinnar. Jafnframt verði unnið að undirbúningi farsælla lausna fyrir íbúa til húsahitunar í stað fjarvarmaveitunnar.

Þá verði opnuð upplýsingasíða á vef kaupstaðarins fyrir upplýsingar sem tengjast lokuninni og nýrra lausna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.