Vidal Valal: Að spila oddahrinu eins og að spila í lottóinu

Þjálfari Þróttar segir liðið hafa skort trú á verkefnið til að gera út af við HK í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í blaki í gær. HK vann leikinn í Neskaupstað í upphækkun í oddahrinu í gær og getur tryggt sér sæti í úrslitarimmunni í þriðja leiknum á morgun.

„Þessi leikur gat fallið hvoru megin sem var en að spila í oddahrinu er alltaf svolítið eins og að spila í lottóinu,“ sagði Ana Vidal Vilal, þjálfari Þróttar í samtali við Austurfrétt eftir leikinn.

HK vann fyrstu tvær hrinurnar en Þróttur svaraði og tókst að knýja fram oddahrinu. Þróttur var þar í góðri stöðu og fékk fleiri en eitt tækifæri til að klára hana en hávörn HK var á réttum stað.

„Mér fannst við kannski of hrædd á köflum. Við treystum of mikið á Mateo (Castrillo) en stundum verðum við að treysta meira á okkur sjálf. Á móti spilaði Galdur (Davíðsson) besta leik ævi sinnar hér í kvöld.

Okkur vantaði baráttu í fyrstu tvær hrinurnar. Sendingarnar voru líka of lágar og uppgjafirnar ekki nógu góðar. Við skoruðum of mörg stig fyrir þá. Það snýst trúlega um einbeitingu frekar en tækni.“

HK er nú 2-0 yfir í rimmunni en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst í úrslitin. Þriðji leikurinn verður í Kópavogi á morgun en vinni Þróttur hann tekur við frí fram yfir páska vegna landsleikja.

„Það er minnst einn leikur eftir og við verðum að reyna að berjast í honum. Ef við vinnum hann fáum við nokkurra vikna hvíld sem væri kærkomin því leikirnir að undanförnu hafa reynt mikið á lykilmenn okkar.“

Vissum að mikilvægustu sendingarnar yrði til Mateo

Massimo Pistoia, þjálfari HK, var heilt yfir ánægður með leik síns liðs. „Fyrstu tvær hrinurnar voru góðar. Þrátt fyrir nokkur mistök spiluðu strákarnir mjög vel.

Við vitum að það er alltaf erfitt að vinna Þrótt og ég á erfitt með að segja að við höfum verið tilbúnir þegar mótherjar okkar svöruðu fyrir sig. Þróttur er með gott lið, einkum í vörninni. Við lentum líka í svona leik hér í fyrra. Ég vona að áhorfendur hafi skemmt sér því í mínum huga var þetta einn besti leikur tímabilsins.“

Sem fyrr treysti Þróttur á Mateo í vörninni en hann skoraði 47 stig í gær. HK tókst að finna svar við honum í oddahrinunni og það gerði gæfumuninn.

„Þróttur var þremur stigum yfir en við náðum að verjast Mateo 2-3 sinnum í hávörninni og það breytti hrinunni. Eftir það vissi ég að leikurinn ynnist í blokkinni og við vorum með þrjá á móti honum þar það sem eftir var því ég vissi að mikilvægustu sendingarnar yrðu á hann.“

Fyrr í leiknum hafði HK fengið á sig tvö refsistig fyrir að mótmæla dómurunum. „Ég veit að ég bregst illa við og við getum ekki kvartað undan spjöldunum því dómarinn hefur alltaf rétt fyrir sér ef menn mótmæla.

Ég vil tala almennt um málið því mér finnst of mörg stig ráðast á ákvörðunum dómara, ekki bara hér í dag. Það er eðlilegt að mannfólkið geri mistök en að 6-7 stig velti á þeim og þeir ráði stundum úrslitum í hrinum er of mikið. Við verðum að gera betur.“

Fyrsti leikurinn á miðvikudag var einnig nokkuð jafn og Massimo á von að það haldi áfram á morgun. „Það verður þeirra síðasti séns þannig við verðum að vera viðbúnir. Ég á von á mögnuðum leik.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.