Orkumálinn 2024

„Við munum berjast fram á síðasta dag“

„Ég slæ varnagla við fiskeldi í opnum sjókvíum. Það er enn of margt óljóst, meðal annars hefur ekki verið sýnt með rökstuddum hætti fram á að þau stórtæku áform sem uppi eru skaði ekki lífríki fjarða,“ segir Berglind Häsler, bóndi og matvælaframleiðandi á Karlsstöðum í Berufirði, en hafin er undirskriftasöfnun gegn fyrirhugaðs laxeldis á suðurfjörðum Austfjarða.


Umfangsmikið fiskeldi er fyrirhugað víðsvegar á Austfjörðum, meðal annars í Berufirði. Samkvæmt Agli Þórarinssyni, sérfræðingi á sviði umhverfismats hjá Skipulagsstofnun, hefur Fiskeldi Austfjarða heimild fyrir eldi á 6000 tonnum af laxi og 2000 tonnum af regnbogasilungi á tveimur svæðum í firðinum í dag. Fyrirtækið hefur lagt inn umsókn um að fá leyfið stækkað upp í 10.000 tonn af laxi en hyggst ekki halda áfram eldi á regnbogasilungi.

„Kynningarferli á frummatsskýrslu lauk um miðjan nóvember og á þeim tíma bárust athugasemdir og eins og eins og stendur er framkvæmdaraðili að vinna matsskýrslu sem felst m.a. að vinna úr þeim umsögnum og athugasemdum sem bárust á kynningartíma frummatsskýrslu. Þegar framkvæmdaraðili hefur svo skilað inn fullnægjandi matsskýrslu mun Skipulagsstofnun hefja vinnu við álit um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar,“ segir Egill.

Skelfileg tilhugsun að fá þetta í fangið
Að undirskriftarsöfnuninni standa íbúar og velunnarar fjarðanna, eins og í henni stendur, en sami hópur sendi einnig frá sér ítarlega athugsemd til Skipulagsstofununar áður en fresturinn rann út.

„Ég skal vera alveg heiðarleg. Ég á persónulegra hagsmuna að gæta. Fiskeldi Austfjarða sækir nú um leyfi fyrir stóru eldissvæði með útsetningu kvía beint fyrir framan Karlsstaði og Berunes, en þessir aðilar hafa lífsviðurværi sitt af ferðaþjónustu og gera mikið út á sjálfbærni og umhverfisvernd. Hingað kemur fólk til að upplifa kyrrð og ósnortna náttúrufegurð. Umfangsmikið fiskeldi í opnum sjókvíum er ekkert annað en stóriðja og ef fram fer sem horfir verður starfssemin í nánast öllum fjörðum hér fyrir austan með tilheyrandi umhverfisáhrifum. Af þessu er truflun, óþefur, mengun, sjónrænt lýti að degi til og svo er þetta upplýst í myrkri. Okkur finnst því skelfileg tilhugsun að fá þetta svona í fangið í hrópandi mótsögn við þá starfsemi sem við leggjum áherslu á,“ segir Berglind.

„Það er ekkert öruggt í þessu“
Berglind segir að málið risti þó miklu dýpra. „Auðvitað viljum við ekki fá þetta fyrir utan gluggann hjá okkur, þetta er svo miklu stærra og alvarlegra mál en það. Það er ekkert öruggt í þessu, það eru engar rannsóknir sem hafa sýnt það með beinum hætti að þetta skaði ekki lífríkið. Fyrirtækið sendi skýrslu til Skipulagsstofnunar þar sem vísað var í allskonar heimildir, sem og gögn og vottanir sem standast enga skoðun. Það er til að mynda æðavarp á nokkrum stöðum í Berufirði og ekki er búið að sýna fram á að þetta muni ekki hafa skaðleg áhrif á það.“

Hagsmunaðilar teknir seint að borðinu
Berglind segir hagsmunaaðila koma of seint að borðinu. „Landeigendur á Ströndinni hafa nýverið fengið fregnir af þessu. Eðlilegra hefði verið að kalla alla hagsmunaaðila að borðinu strax í upphafi til að forðast misskilning og deilur. En nú sitjum við einhvernveginn uppi með þetta. Þetta er búið að taka óhemju mikinn tíma, bara að sanka að sér upplýsingum. Maður er hálf máttlaust gagnvart þessu. En við munum berjast fram á síðasta dag.

Svo kemur spurningin; ertu á móti framþróun í bænum þínum? Auðvitað þarf bærinn að reka sig en ekki á kostnað náttúrunnar eða hagsmuna annarra. Það er ekki alltaf hægt taka hagsmuni fárra aðila, þó þeir hafi úr milljörðum að spila, og troða á hagsmunum þeirra sem fyrir eru, það er bara ekki réttlætanlegt.“

Til eru aðrar leiðir
Berglind bendir á að vel sé hægt að fara aðrar leiðir í þessu máli. „Einnig er talað um að vera með kvíar upp á landi og mér finnst alveg sjálfsagt að skoða það, það er hægt að fá allskonar líffæna vottun og gera þetta vel, án þess þá að eiga á hættu að þetta blandist við villta stofninn. Þeir græða reyndar alls ekki eins mikið á því, en eigum við að horfa í það að einhverjir fimm séu að græða eitthvað svaka og aðrir tapi á sama tíma, er það réttlætanlegt?




Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.