Verið að opna hálendisvegi

Þó veðrið hafi að mestu leikið við Austfirðinga í vor og sumar, þá voru fjallvegir inni á hálendinu ennþá lokaðir að mestu þar til í dag. En skjótt skipast veður í lofti og þessa dagana er verið að opna nokkra hálendisvegi.


Samkvæmt nýjasta korti Vegagerðarinnar, sem gefið var út í dag, er nú búið að opna vegi F902, F903, F905, F907 og austasta hluta F910, þ.e. frá Kárahnjúkum og að Dreka. Þannig er orðið fært inn í Kverkfjöll og eins hringleiðina úr Fljótsdal, að Kárahnjúkum og niður Brúardali í átt að Jökuldal og Sænautaseli. Samkvæmt eldra korti Vegagerðarinnar, frá því í gær, var aðeins opið um vegi 901, sem er gamli þjóðvegurinn um Möðrudalsöræfi, og 910 sem liggur upp úr Fljótsdal að Kárahnjúkum.


Að sögn Lilju Óladóttur, staðarhaldara í Sænautaseli, var þó starfsemi þar komin í gang og hefur verið fært inn að Sænautaseli í um viku.


„Við opnum eiginlega bara með Vegagerðinni. Það þýðir ekkert annað, því um leið og opnað er byrjar fólk að streyma um veginn. Vegagerðin er að vinna í að opna vegi hér í kring núna en ég hef heyrt að ekki verði opnað inn í Öskju alveg strax. Bleytan er ennþá of mikil til þess.“

 

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir að aðstæður nú breytist hratt og það borgi sig að fylgjast vel með kortunum sem Vegagerðin birtir á heimasíðu sinni jafnóðum og eitthvað breytist.

„Þetta getur gerst mjög hratt. Náttúran ræður auðvitað mestu og það er reyndar stundum ótrúlegt hvað snjóinn bræðir skart. En svo þarf vegur að þorna og þess háttar, þannig að það er auðvitað misjafnt hvað það gengur vel.“

 

Kortið frá í dag má finna með því að smella hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.