„Verðlaunin segja mér að verið sé að hlusta“

Egilsstaðabúinn Tara Ösp Tjörvadóttir hlaut í gær verðlaun Framúrskarandi ungir íslendingar, sem veitt eru árlega af JCI á Íslandi.



Verðlaunin Framúrskarandi ungir Íslendingar eru nú veitt í fjórtánda skiptið og í ár bárust um tvö hundruð tilnefningar frá almenningi, en dómnefnd valdi af honum tíu einstaklinga til verðlaunanna og varð Tara Ösp Tjörvadóttir þeirra hlutskörpust.

Tara er ein af forsprökkum #égerekkitabú samfélagsmiðlabyltingunnar og tók þátt í stofnun samtakanna Geðsjúk. Hún hefur barist fyrir fordómum gegn andlegum sjúkdómum síðan hún kom út úr sínum þunglynda skáp 2015, eftir 12 ára baráttu við þunglyndi. Hún stofnaði ljósmyndaverkefnið „Faces of Depression” sama ár þar sem hún hefur til þessa myndað 100 Íslendinga í baráttunni við þunglyndi.

Athöfnin fór fram í hinum glæsta lestrarsal í Safnahúsinu við Hverfisgötu og var það forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson sem afhenti verðlaunin ásamt Elizes Low, landsforseta JCI á Íslandi.


Vinnur að gerð heimilidarmyndar um þunglyndi

„Verðlaunin segja mér að verið sé að hlusta og samfélagið að átta sig á mikilvægi tjáningar um andlega sjúkdóma. Þau eru mér mikil hvatning í baráttunni gegn fordómum andlegra sjúkdóma,“ sagði Tara Ösp í samtali við Austurfrétt.

Tara er ekki hætt í baraáttu sinni heldur safnar nú fyrir gerð heimildarmyndarinnar „Þunglynda þjóðin“ sem mun koma út í byrjun 2017, með það að markmiði að fræða kennara og nemendur um þunglyndi.

„Það er gríðarleg vöntun á fræðsluefni um andlega sjúkdóma bæði fyrir samfélagið í heild sinni og grunn- og framhaldsskóla og því ákvað ég að gera heimildarmynd um þunglyndi og þau neikvæðu áhrif sem fordómar samfélagsins hafa á andlegar baráttur okkar. Einnig kem ég austur í júní til að vinna áfram að ljósmyndaverkefninu Faces Of Depression.“


Þórunn Ólafsdóttir var meðal tíu efstu í kjörinu

Tara er ekki eini Austfirðingurinn sem var tilnefnd til verðlaunanna, heldur var Þórunn Ólafsdóttir einnig á topp tíu listanum fyrir störf sín á sviði mannúðar- eða sjálfboðaliðamála.Þórunn hlaut einmitt Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar á dögunum fyrir starf sitt sem sjáflboðaliði á eyjunni Lesbos í Grikklandi.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.