Vegagerð hafin í Berufirði

Héraðsverk er byrjað á gerð nýs vegar yfir Berufjörð sem heimamenn hafa lengi beðið eftir. Aukinn kraftur færist í verkið á næstu vikum þegar Héraðsverk lýkur annarri stórframkvæmd sem fyrirtækið hefur verið með.


„Við erum byrjaðir á fyllingu yfir fjörðinn að brúnni og skeringum í firðinum sunnanverðum, bæði lausum og föstum. Við erum að byrja að bora og sprengja í þessum töluðu orðum,“ sagði Viðar Hauksson, verkstjóri hjá Héraðsverki þegar Austurfrétt heyrði í honum í morgun.

Hafist var handa 8. ágúst, þriðjudaginn eftir verslunarmannahelgi. Við verkið starfa nú 10-15 manns en í þann hóp bætist á næstu vikum þegar Héraðsverk lýkur við gerð vegar yfir Morsá á Skeiðarársandi. Á hann verður lögð klæðning í þessari viku og vegurinn tengdur eftir næstu helgi.

Í haust verið unnið við fyllinguna að brúnni yfir fjörðinn og fergingu brúarstæðisins. Til þess verður notað efni sem til fellur við skeringar í sunnanverðum firðinum. Þá er þess dagana verið að leggja endanlegt mat á staðsetningu vinnubúða.

Nýi vegurinn verður alls 4,9 km, brúin 50 metrar en að auki þarf að gera nýjar heimreiðar að bæjunum Berufirði og Hvannabrekku.

Tilboð Héraðsverks og MVA á Egilsstöðum í verkið var rúmar 840 milljónir króna, 35 milljónum yfir kostnaðaráætlun. Verkinu skal að fullu lokið 1. september 2018.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar