Ungmenni í Fjarðabyggð kjósa í „skuggakosningunum“ á laugardaginn

„Þetta er gott tækifæri til þess að virkja krakkana til þess að hugsa um kosningar og pólitók áður en þau verða sjálf fullgildir kjósendur,“ segir Bjarki Ármann Oddsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi í Fjarðabyggð um „skuggakosningarnar“ sem verða samhliða alþingiskosningunum í Fjarðabyggð á laugardaginn.



Skuggakosningar ungs fólks í Fjarðabyggð fara fram samhliða alþingiskosningum þann 29. október nk. Kosningarétt hefur ungt fólk á aldrinum 14 til 17 ára.

Í skuggakosningum gefst ungu fólki tækifæri til að læra að kjósa, en þær eru oft kallaðar skólakosningar eru haldnar víða um Evrópu til að kynna ungu fólki kosningarrétt sinn og efla þau til þátttöku.

Kosningin fer fram á vegum Ungmennaráðs Fjarðabyggðar og verður í framkvæmd lítt frábrugðin alþingiskosningum. Atkvæðaseðlar verða afhentar í kjördeildum sveitarfélagsins og þeim svo safnað í þar til gerða kjörkassa.

Kosningarréttur á Íslandi hafa allir þeir sem náð hafa 18 ára aldri á kjördag. Það þýðir að þeir sem eru fæddir 30. október og hafa ekki náð 18 ára aldri fá ekki að kjósa til alþingis í þetta sinn.

Kosningarréttur til skuggakosninga hafa þá þeir sem fæddir eru frá og með 30. október 1998. Yngri mörkin miðast á hinn bóginn við bekk en ekki fæðingarár og er öllum 8., 9. og 10. bekkingum í grunnskóla heimild þátttaka.


Kynningarmyndbönd hafa verið send í skólana

„Kosningaþátttaka er alltaf að minnka og er þetta einnig leið til þess að sporna gegn þeirri þróun og vonum við að með þessu móti fáum við unga fólkið okkar til þess að tileinka sér þau mikilvægu lýðréttindi sem almennar kosningar fela í sér og hvetja til ábyrgrar samfélagsþátttöku og að það nýti sér rétt sinn þegar þar að kemur,“ segir Bjarki Ármann.

Bjarki Ármann segir ungmennaráðið spennt fyrir kosningunum og vonast eftir góðri þátttöku. „Það er gaman fyrir þau að koma með forráðamönnum sínum á kjörstað, en þar er komið fram við þau eins og aðra kjósendur, þeim eru afhentir kjörseðlar af sama fólki og fara í kjörklefa eins og aðrir. Atkvæðin verða svo talin, þó svo við ætlum ekki að eyða laugardagskvöldinu í það, það mun bíða þar til á næsta fundi.

Sambærilegar kosningar voru haldnar á Höfn samhliða forsetakosningunum í vor þar sem Halla Tómasdóttir sigraði. Það verður því spennandi að vita hvaða flokkur sigrar í Fjarðabyggð.“

Aðspurður hvernig krakkarnir eigi að mynda sér skoðun á málefninu segir Bjarki Ármann. „Já, það er góð spurning. Við höfum í það minnsta sent póst á alla skólastjóra Fjarðabyggðar með stuttum myndböndum um hvern flokk, auk þess sem við vonumst eftir umræðu um þetta í samfélagsfræðitímum.“

Ungmennaráð Fjarðabyggðar vonast eftir góðri þátttöku og er um að gera fyrir fjölskyldur með ungmenni á þessum aldri að gera sér dagamun og kjósa saman á laugardaginn.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.