Undirbúa gervihnattamælingar til að fylgjast með Strandartindi

Veðurstofa Íslands undirbýr nú gervihnattamælingar til að fylgjast með sífrera í Strandartindi sem er ofan við sunnanverðan Seyðisfjarðarkaupstað. Hætta er á að hlýnandi loftslag geti valdið skriðuföllum úr tindinum. Mikil skriða féll úr honum síðasta sumar.

„Strandartindurinn er einn þekktasti skriðustaður landsins og það hefur orðið manntjón í skriðuföllum úr honum. Þess vegna er hann viðfangsefni okkar. Við erum að undirbúa að mæla á hverju ári hreyfingu urðarinnar með gervihnetti og fylgjast þannig með hvort sé að verða uggvænleg þróun.

Það er þekkt að svona urðir geta leitt til skriðufalla í hlýnandi loftslagi þegar ísinn bráðnar. Það hefur hlýnað nokkuð síðustu ár og við höfum orðið varir við skriðuföll úr svona urðum annars staðar,“ segir Tómas Jóhannesson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Urðin sem hann vísar til er svokölluð þelaurð, sem einnig kallast sífreri eða grjótjökull. Það eru frosin setlög sem safnast upp á löngum tíma. Að mestu eru þau urð og grjót sem haldið er saman með ís og geta því sigið undan halla og hreyfst, líkt og jöklar. Áhyggjur eru af urðinni sem hnígur yfir brún í fjallshlíðinni. Þaðan geta fallið skriður þegar brúnin verður óstöðug.

Sífrerinn í Strandartindi hefur nokkrum sinnum verið rannsakaður, síðast var skrifuð skýrsla árið 2015 um hugsanlegar varnaraðgerðir. Eftirlit með sífreranum er meðal þeirra tillagna sem fram koma í henni, sem og að byggja varnarveggi og þurrka upp ákveðin svæði.

Mestar áhyggjur eru af Þófasvæðinu, sem er svo að segja beint upp af athafnasvæði Síldarvinnslunnar á staðnum. Öflug skriða hljóp niður Þófalæk í mikilli úrkomu í lok júní í fyrra og skemmdi tvö hús. Áætlanir um uppbyggingu varna eru samstarfsverkefni Seyðisfjarðarkaupstaðar og Veðurstofunnar.

Mikil skriða féll úr tindinum í fyrra sem átti upptök ofarlega í fjallinu. Mynd: GG


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.