Um borð í nýjum Jóni Kjartanssyni – Myndir

Nýtt skip Eskju, Jón Kjartansson, kom til heimahafnar í fyrsta sinn á þriðjudag. Það leysir af hólmi eldra skip með sama nafni.

Nýja skipið hét áður Charisma og var gert út frá Whalsey, sjöttu stærstu eyju Hjaltlandseyja. Nafnið er tekið úr tungu víkinganna og þýðir eyja hvalanna.

Eyjan er ekki nema um 3 kílómetrar á breidd og níu kílómetrar að lengd, alls tveir hektarar að flatarmáli. Þar búa þó ríflega 1000 manns. Merkilegt þykir að íbúum eyjunnar hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarna áratugi, öfugt við mörg afskekkt svæði sem eru í mikilli vörn.

Whalsey er stundum nefnd eyja milljónamæringanna en sjávarútvegurinn þykir hafa skapað þar afar góð lífsskilyrði enda var Charisma ekki eina veiðiskip eyjunnar. Eyjan er sögð hafa á að skipa fleiri milljónamæringum eftir höfðatölu en nokkuð annað svæði í Bretlandi.

Fara þarf til eyjunnar á bát. Þar ríkir sérstök eyjastemming með kindum og kúm í bakgörðum húsa.

Charisma í fréttunum

Árið 2012 fékk skipstjóri Charismu sekt upp á um sex milljónir króna. Hann var einn af þrettán skipstjórum sem fengu háar fjársektir og refsingar fyrir að brjóta reglur Evrópusambandsins og landa miklum afla framhjá vigt. Aðeins einn skipstjóranna var ekki frá Whalsey.

Evrópusambandið er með strangar reglur um hve lengi skip mega vera á sjó og hver kvóti þeirra er. Öflug skip eins og Charisma hafa haft orð á sér fyrir að geta sótt allan kvóta sinn í fáum ferðum.

Það kann að vera hluti skýringarinnar á því hvers vegna Charisma er afar lítið notað skip miðað við aldur og vel með farið. Það var smíðað í Noregi árið 2003.

Árið 2014 komst áhöfn Charismu í fréttirnar fyrir góðverk þegar einn áhafnarmeðlima, sem einnig starfar sem sjúkraflutningamaður, hafði frumkvæði að því að koma hjartastuðtækjum um borð í öll uppsjávarskip Hjaltlandseyja.

Til veiða um mánaðarmótin

Gengið var frá kaupunum á Charismu í lok maí en skipið fór í slipp til Danmerkur áður en það kom hingað. Nú er verið að aðlaga skipið enn frekar að kröfum Eskju en gert er ráð fyrir að það haldi til veiða á makríl upp úr mánaðarmótum.

Skipið er 70,7 metrar á lengd og 14,5 metrar á breidd. Aðalvél skipsins er MAK 6000 kw og 8160 hestöfl. Grétar Rögnvarsson verður skipstjóri.

Gamli Jón Kjartansson er á söluskrá og ekki ljóst á þessari stundu hver framtíð skipsins verður. Það skip var smíðað árið 1978 en hafði verið talsvert endurnýjað í gegnum tíðina. Í það vantaði hins vegar vakúmtækni sem nýja skipið hefur til löndunar í nýju frystihúsi Eskju. Það er einnig búið ýmsum tækjum sem létta munu vinnuna um borð frá því sem verið hefur.

Austurfrétt fékk að fara um borð í gær og skoða skipið.

Jon Kjartansson Juli17 0003 Web
Jon Kjartansson Juli17 0005 Web
Jon Kjartansson Juli17 0006 Web
Jon Kjartansson Juli17 0007 Web
Jon Kjartansson Juli17 0009 Web
Jon Kjartansson Juli17 0011 Web
Jon Kjartansson Juli17 0012 Web
Jon Kjartansson Juli17 0013 Web
Jon Kjartansson Juli17 0014 Web
Jon Kjartansson Juli17 0015 Web
Jon Kjartansson Juli17 0016 Web
Jon Kjartansson Juli17 0018 Web
Jon Kjartansson Juli17 0019 Web
Jon Kjartansson Juli17 0024 Web
Jon Kjartansson Juli17 0027 Web
Jon Kjartansson Juli17 0028 Web
Jon Kjartansson Juli17 0029 Web
Jon Kjartansson Juli17 0030 Web
Jon Kjartansson Juli17 0031 Web
Jon Kjartansson Juli17 0033 Web
Jon Kjartansson Juli17 0034 Web
Jon Kjartansson Juli17 0036 Web
Jon Kjartansson Juli17 0037 Web
Jon Kjartansson Juli17 0038 Web
Jon Kjartansson Juli17 0040 Web
Jon Kjartansson Juli17 0043 Web
Jon Kjartansson Juli17 0046 Web
Jon Kjartansson Juli17 0053 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar