Orkumálinn 2024

Tveir hættulegustu vegkaflar landsins á Austurlandi

Suðurfjarðarvegur milli Fáskrúðsfjarðar og Breiðdalsvíkur og vegurinn frá Fellabæ að gatnamótunum við Úlfsstaði á Völlum eru þeir kaflar í íslenska vegakerfinu þar sem flest alvarleg slys verða miðað við umferðarþunga. Sérfræðingur í umferðaröryggi segir ástand austfirska vegakerfisins slæmt.

Þetta kemur fram í samantekt EuroRAP, samtaka evrópskra bifreiðaeigenda, fyrir árin 2009-2014 sem greint var frá í Fréttablaðinu í dag. Inn í útreikningana er tekinn fjöldi alvarlegra slysa, lengd vegakaflanna og umferðarþungi.

Suðurfjarðarvegurinn er talinn áhættumesti vegarkafli landsins. Hann er 33,7 km langur og um hann fer 281 bíll á dag. Á honum urðu sex alvarleg slys eða banaslys á tímabilinu.

Jafnmörg slík slys urðu á veginum frá Fellabæ inn Velli að vegamótunum að Upphéraðsvegi við Úlfsstaði en hann er 13,7 km langur og um hann fara að meðaltali 1240 bílar á dag.

Sé litið til þeirra vegakafla þar sem flest alvarleg slys verða, óháð umferðarþunga, er Suðurfjarðarvegurinn í 16. sæti og vegurinn inn Velli þar á eftir. Vegurinn yfir Fagradal er þar þrettándi í röðinni, á honum urðu sjö alvarleg slys eða banaslys á tímabilinu. Umferðin um hann er hins vegar mun meiri og telst hann því áhættu minni.

Ólafur Guðmundsson, tæknistjóri hjá EuroRAP á Íslandi segir í samtali við Austurfrétt að þessar tölur bendi til þess að setja þurfi endurbætur á Suðurfjarðarvegi í forgang, einkum eftir að leiðin var gerð að þjóðvegi númer eitt í haust. „Við vitum öll hvernig hann er, mjór og sífellt upp og niður.“

93% vega í lægstu gæðaflokkunum

Þegar tölur um tíðni umferðarslysa liggja fyrir gerir EuroRAP ítarlegri greiningu á vegunum. Keyrt er um vegina á bíl með tölvubúnaði sem safnar ýmsum upplýsingum auk þess sem bílstjórinn kannar umhverfið samkvæmt leiðbeiningum EuroRAP. Meðal annars er litið til breiddar vegar, yfirborðsmerkingar, ástand vegarins og hvernig nánasta umhverfi sé háttað. Út frá þessu er hægt að leggja fram tillögur til úrbóta, áætla kostnað og forgangsraða þeim.

Ólafur segir þessa greiningu fyrir Austurland ekki enn tilbúna en hún sé væntanleg. „Í stuttu máli er ljóst að staðan er ekki mjög góð fyrir austan,“ segir hann.

Í gæðakerfi EuroRAP er vegunum skipt upp í fimm flokka eftir gæðum. Ólafur segir 93% af vegum á Austurlandi vera í neðstu tveimur flokkunum. Hægt sé að tala um að ástand vegar sé ásættanlegt þegar hann sé kominn upp í þriðja flokk.

Hann nefnir sem dæmi að kantlínur á Fagradal séu brotnar en eigi að vera heilar. Ljósi punkturinn í stöðunni sé að víða sé unnið að úrbótum, til dæmis hafi verið komið upp vegriði við gatnamótin til Mjóafjarðar, en kaflinn frá þeim í Egilsstaði er í lægsta gæðaflokki.

Þá hafi áhættusamur vegur verið tekinn úr notkun í nóvember þegar ný Norðfjarðargöng voru tekin í gagnið.

Á tímabilinu sem horft er til urðu tvö banaslys í fjórðungnum, 37 alvarleg slys, 90 slys með litlum meiðslum og 513 tjón á farartækjum í óhöppum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.