Tilboð bæjarfulltrúa í skólaakstur úrskurðað ógilt

Tilboð Páls Sigvaldasonar, bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins á Fljótsdalshéraði, í skólaakstur og almenningssamgöngur í sveitarfélaginu var úrskurðað ógilt. Bæjarfulltrúinn kom að undirbúningi útboðsins sem kjörinn fulltrúi.


Sveitarfélagið óskaði lögfræðiálits eftir að athugasemd barst frá öðrum bjóðanda. Niðurstaða þess er að úrskurða beri tilboð Páls Sigvaldasonar slf. ógilt sem og fræðslunefnd sveitarfélagsins gerði.

Fyrirsvarsmaður fyrirtækisins er Páll Sigvaldason, bæjarfulltrúi og aðalmaður í umhverfis- og framkvæmdanefnd. Nefndin fjallaði um útboðið áður en til þess kom og bæjarstjórn staðfesti ákvörðun um útboð almenningssamganga og skólaaksturs á Fljótsdalshéraði.

Í lögfræðiálitinu segir að fulltrúar í nefndinni hafi fjallað um undirbúning útboðsins og þar verið farið yfir ýmsar forsendur þess. Sýnt sé að fulltrúar í nefndinni hafi upplýsingar um málefni útboðsins umfram það sem fram komu í útboðsgögnum auk þess sem þeir hafi upplýsingarnar lengur en almennir bjóðendur.

Þetta telur lögfræðingurinn brjóta í bága við jafnræðisreglu laga um opinber innkaup.

Einnig er vísað í ákvæði í siðareglum Fljótsdalshéraðs um að kjörnir fulltrúar skuli ekki nýta sér óopinberar upplýsingar til að hagnast persónulega eða hjálpa öðrum. Í lögfræðiálitinu segir að ekki sé ljóst hve mikið nefndarsetan hafi getað nýst Páli við tilboðið en almennt verði að teljast að slík staða geti falið í sér forskot gagnvart öðrum bjóðendum.

Páll taldist ekki vanhæfur við umfjöllun útboðsins í nefnd eða bæjarstjórn en aðkoma hans þar hafði áhrif á hæfi hans síðar í ferlinu eins og fram hefur komið. Fleiri kjörnir fulltrúar þurftu að víkja sæti við málsmeðferðina vegna tengsla í við bjóðendur eða aðila sem unnu að gerð útboðsgagna.

Í lögfræðiálitinu er einnig tekin afstaða til þess hvort tilboðs Páls Sigvaldasonar slf. sé gilt þótt félagið hafi ekki fengið útboðsgögn afhent. Slíkt er talið orka tvímælis þar sem gert sé ráð fyrir að bjóðendur sæki gögn en ekkert banni það beinlínis og því eigi ekki að hafna tilboðinu á þeim forsendum.

Boðnar voru út almenningssamgöngur í þéttbýli, akstur úr félagsmiðstöð og leiðin Egilsstaðir – Brúarás. Ákveðið var að taka tilboði Sæta hópferða ehf. í allar leiðirnar upp á samtals um 33 milljónir króna.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.