Þurfum að styrkja samfélagið til að halda í fólk

Fulltrúar stærstu fyrirtækja Austurlands segja mikilvægt að byggja upp menntunarmöguleika í fjórðungnum til að tryggja og halda í hæft starfsfólk. Um það verði atvinnulífið og samfélagið að sameinast.


„Við vinnum það öll sem rekum fyrirtæki að það er aðeins ágjöf á samfélagið. Við missum fólk og mannaráðningar þyngjast.

Þess vegna held ég að það sé enn mikilvægara að ná samstöðu í máli eins og þessu,“ sagði Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar við undirritun samkomulags um uppbyggingu Háskólaseturs Austfjarða á Eskifirði á föstudag.

Stærstu fyrirtæki Fjarðabyggðar koma að samkomulaginu sem leitt er af sveitarfélaginu og Háskólanum á Akureyri. Setrið verður með áherslu á náttúru-, verk- og tæknigreinar. Kennsla í því gæti hafist haustið 2018 en innan skamms verður ráðinn verkefnastjóri til að vinna að framgangi þess.

„Ég tel ástæðu til að óska okkur til hamingju með þennan áfanga. Það er til eftirbreytni að atvinnulífið og samfélagið sameinust um góð málefni. Við þurfum virkilega að styrkja samfélagið. Þetta mál og fleiri brýn styðja við okkar starfsemi,“ bætti Gunnþór við.

Guðný Björg Hauksdóttir, framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Alcoa Fjarðaáli sagði mikilvægt að efla verk- og tæknimenntun á svæðinu.

„Til framtíðar litið er mikilvægt að menntastig á Austurlandi haldist í hendur við þarfir atvinnulífsins, ekki hvað síst í verk- og tæknimenntun. Þá teljum við ekki síður mikilvægt, að ungu fólki gefist kostur á að ljúka menntun sinni í heimabyggð.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.