Þrjár sjúkraþyrlur þarf til að ná til alls landsins

Þrjár til fjórar sjúkraþyrlur þyrfti til að ná til alls landsins á 30 mínútum. Á Austurlandi kæmi trúlega best út að nota björgunarþyrlu til sjúkraflutninga.


Þetta kemur fram í skýrslu um sjúkraflutninga sem kynnt var heilbrigðisráðherra í dag en skýrslan er unnin fyrir fagráð um sjúkraflutninga. Megintillaga skýrslunnar er að gerð verði tilraun með sjúkraþyrlu fyrir Suður- og Vesturland.

Í skýrslunni er bent á að sjúkraflutningum hafi fjölgað almennt á landinu síðustu ár, sem og sjúkraflugum, og útlit sé fyrir að þeim fjölgi enn frekar með fleiri ferðamönnum og breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar.

Að auki er til staðar sérhæfing á Landsspítalanum sem ekki er annars staðar auk þess sem flutningar með sjúkrabílum taki langan tíma og á meðan séu læknar eða bílarnir fjarverandi sem geti skapað vandræði.

Þá er í skýrslunni bent á að þjálfun sjúkraflutningamanna í dreifðari byggðum sé oft takmörkuð og jafnvel erfitt að manna þá. Austfirðir eru eitt af þeim svæðum sem nefnd eru þar sem dæmi.

Megin viðfangsefni skýrslunnar er að skoða rekstur léttrar sjúkraþyrlu með þjálfaðri áhöfn. Áætlað er að þrjár eða fjórar slíkar gætu náð til alls landsins á 30 mínútum, 120 km radíuss, með réttri dreifingu. Þyrla fyrir norðaustursvæði yrði þá annað hvort staðsett við Mývatn, í þriggja þyrlna kerfi, eða á Egilsstöðum séu þær fjórar miðað við tillögurnar.

Mat skýrsluhöfunda er hins vegar að verkefnin séu of fá til að setja sérstaka sjúkraþyrlu auk þess sem veðurskilyrði á Austurlandi sé þannig að léttari þyrlur eigi þar erfitt um vik. Þess í stað er lagt að skoða, þegar fram í sækir, möguleikann á að samnýta björgunarþyrlu og sjúkraþyrlu.

Þyrlan nýtist hins vegar ekki til að flytja sjúklinga alla leið til Reykjavíkur. Loftlínan milli Egilsstaða og Reykjavíkur eru 380 km og tekur sú þyrluferð einn og hálfan tíma við bestu aðstæður en flugvélin kemst á um hálftíma. Hún flýgur á 536 km/klst á meðan þyrlurnar komast á 250-60 km hraða.

„Þyrla sem væri staðsett þar (á Egilsstöðum) yrði kannski best nýtt til þess að sinna bráðveikum sjúklingum á minni stöðum langt frá flugvelli og ferja þangað sem flugvél gæti tekið við.“

Áætlað er að rekstrarkostnaður sjúkraþyrlna væri 650 milljónir á ári. Tilkoma þeirra krefðist líka endurskoðunar núverandi kerfis sjúkraflutninga.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.