Orkumálinn 2024

Þórunn vill efsta sætið hjá Framsókn: Hef fengið mikla hvatningu

Þórunn Egilsdóttir , sem skipaði annað sætið á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir síðustu þingkosningar, hefur lýst því yfir að hún sækist eftir efsta sætinu fyrir kosningarnar í næsta mánuði.

„Ég hef verið í forustusveitinni undanfarin misseri, þingflokksformaður og einn af varaforsetum þingsins og er tilbúin að axla meiri ábyrgð,“ segir Þórunn í samtali við Austurfrétt.

Í tilkynningu sem Þórunn sendi frá sér fyrir hádegið segir hún kosningarnar snúast um trúverðugleika og traust. Hún sé tilbúin að vinna með öllu framsóknarfólki til að ná aftur sterkri stöðu flokksins í kjördæminu.

Hún bendir einnig á að meira en einn af hverjum þremur landsmönnum vilji sjá flokkinn í ríkisstjórn. Þann meðbyr vilji hún nýta.

Framsóknarmenn koma saman á sunnudag til að ákveða hvaða aðferð verður notuð við að velja á listann. Hefð er fyrir tvöföldu kjördæmisþingi en stjórn kjördæmisráðsins gefur ekkert út fyrr en á sunnudag hvaða leið hún leggur til að verði farið. Hafa þarf hraðar hendur, aðeins þrjár vikur eru þar til skila þarf inn fullbúnum framboðslistum og meðmælum.

Aðspurð segist Þórunn hafa fundið fyrir miklum stuðningi úr grasrót flokksins að undanförnu. „Ég hef fengið mikla hvatningu til að fara fram.“

Hún segist ennfremur hafa fengið „almennt mjög góð viðbrögð og mikla hvatningu áfram“ eftir að hún tilkynnti ákvörðun sína í morgun. „Ég tel mig eiga góða möguleika en nú er það grasrótarinnar að velja.“

Efsta sætið síðast skipaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrum formaður og forsætisráðherra. Hann hefur gefið það út að hann ætli að fara fram í Norðausturkjördæmi.

Aðspurð um hvort hún hafi rætt við Sigmund um framboð sitt svarar hún: „Nei, ég hef ekki heyrt sérstaklega í honum en ég er búin að heyra í mörgum Framsóknarmönnum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.