Þörf á meira fjármagni til vetrarþjónustu

Ráðherra samgöngumála segir ljóst að þörf sé á meira fjármagni til vetrarþjónustu á vegum í ljósi örra breytinga á atvinnusókn og umferð ferðamanna. Kostnaður Vegagerðarinnar við vetrarþjónustu nemur 35 milljónum á dag það sem af er ári.

Þetta kemur fram í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, við fyrirspurn Líneikar Önnu Sævarsdóttir, þingmanns Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi í þar síðustu viku.

Líneik sagðist hafa orðið vör við það í nýafstaðinni kjördæmaviku að vetrarþjónustan væri ekki í takti við þær miklu breytingar sem orðið hefðu á atvinnusókn og umferð á undanförnum árum. Líneik benti á að atvinnusóknin snérist ekki bara um þéttbýlisstaði heldur líka sveitirnar þar sem í vöxt hefði færst að annar aðili ynni utan búsins.

Líneik spurði út í vetrarþjónustu Vegagerðarinnar, hvað lægi til grundvallar þjónustuflokkum, hvernig eftirliti með færð og vinnu verktaka væri háttað og óskaði eftir meiri skýrleika í framsetningu upplýsinga frá Vegagerðinni. Eins spurði Líneik hvað hefði legið til grundvallar útdeilingu aukins fjármagns til vetrarþjónustu í janúar, en Austurland var eini landsfjórðungurinn sem ekkert fékk þá.

Þá sagðist Líneik hafa orðið vör við umræðu um að líta ætti til fleiri þátta við útboð en kostnaðar, til dæmis á hvaða tíma dags þjónusta hæfist.

Í svari ráðherrans kemur fram að þjónustuflokkarnir byggi á magni umferðar og mikilvægi, til dæmis hvort um sé að ræða mikilvæga flutningsleið eða veg sem tengi saman staði með yfir 200 íbúa og aðeins séu 20 km á milli. Í umræðum var bent á að stundum geti verið erfitt að bera saman umferð út þar sem mismargir teljarar séu á leiðum.

Sigurður Ingi sagði aukninguna í janúar miðast við umferð og mikilvægi leiða. Leitast hafi verið eftir að auka vetrarþjónustuna á vegum sem setið hefði eftir í þjónustu þannig að umferð á þeim hefði aukist verulega en ekki þjónustan og þeir þannig dregist aftur úr vegum með sambærilega umferð.

Sigurður Ingi sagði við mat á færð á vegum væri bæði notast við myndir úr myndavélum Vegagerðarinnar, veðurgögn og eftirlitsakstur. Aksturinn væri einnig nýttur til að meta gæði moksturs.

Sigurður Ingi sagði að meira fé þyrfti til samgöngumála til að efla vetrarþjónustuna. Í svari hans kom fram að kostnaður Vegagerðarinnar frá áramótum vegna vetrarþjónustu næmi 35 milljónum króna á dag.

Rétt er að taka fram að nýverið jók Vegagerðin þjónustuna á vef sínum, í gegnum kort sem sýnir færð á vegum má nú nálgast upplýsingar um hversu gamlar upplýsingarnar eru og reglur um þjónustu vegarins.

Hvernig flokkast vetrarþjónustan?

Í 1. flokki eru mikilvægar leiðir þar sem vetrardagsumferð er annars vegar 2.000 bílar á vegi eða fleiri milli þéttbýlisstaða undir 20 kílómetrum, og hins vegar 3.000 bílar eða fleiri á langleið. Þar er fjöldi mokstursdaga sjö dagar í viku.

Í þjónustuflokki 2 eru vegir milli þéttbýlisstaða undir 20 kílómetrum með umferð milli 300 til 2.000 bíla, og vegir sem falla undir langleið með umferð milli 500 til 3.000 bíla. Þar er fjöldi mokstursdaga sex til sjö eftir atvikum.

Í þjónustuflokki 3 getur einnig verið um sex til sjö daga þjónustu á vegum að ræða þar sem umferðin er undir 300 bílum á vegi milli þéttbýlisstaða undir 20 kílómetrum og langleið með umferð undir 500. Aðrir vegir geta fallið í þjónustuflokk 3 með þriggja til fimm daga þjónustu ef umferð er yfir 100 bílum. Það á sérstaklega við um safnleiðir.

Þjónustuflokkur 4 er fyrir aðra vegi með ótilgreindri umferð sem fá lágmarks reglubundna þjónustu. Fyrir utan þessa skiptingu eru síðan vegir sem falla undir svokallaða helmingamokstursreglu og eru þjónustaðir allt að þrisvar sinnum í viku. Helmingamokstursregla er þá með sveitarfélögunum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.