Þörf á að stokka upp launastefnu sveitarfélaganna

Fræðslumál og aðbúnaður barnafjölskyldna er meðal þess sem borið hefur á góma á framboðsfundum í Fjarðabyggð í vikunni. Fundargestir á Reyðarfirði sýndu áhuga á mönnun skóla og uppbyggingu íþróttamannvirkja á staðnum.

Frambjóðendur voru meðal annars spurðir út í hvernig þeir hygðust bæta kjör kennara og aðbúnað á leikskólum, sérstaklega með það í huga að ákveðnir flokkar, Framsóknarflokkur og Miðflokkur, hafa heitið því að endurskoða fyrirkomulag sumarlokana á leikskólum með það fyrir augum að draga úr þeim.

Jens Garðar Helgason, oddviti Sjálfstæðisflokks sagðist finna það á kennurum að þeir væru orðnir þreyttir. Betri umgjörð skólanna væri ekki bara skólastjórnenda eða sveitarfélags heldur einnig foreldranna. Jens sagðist ekki vera með neina töfralausn.

Jón Björn Hákonarson, oddviti Framsóknarflokksins, sagði að stytting sumarfrís leikskóla í tvær vikur yrði skoðuð í samráði við skólastjórnendur.

Einar Már Sigurðsson sagði stærsta málið að endurskoða launastefnu sveitarfélaganna og kallaði eftir að Fjarðabyggð yrði leiðandi í þeirri vinnu fremur en að láta embættismenn í Reykjavík um verkið.

Í gærkvöldi, sem og fyrri fundum, hafa fulltrúar flestra framboðanna kallað eftir bættri stoðþjónustu við skólanna, einkum í geðheilbrigði.

Í framsöguræðu sinni kallaði Hjördís Helga Seljan, Fjarðalistanum, eftir að skólum yrði auðveldað samstarf við atvinnulíf. Þá yrði barist fyrir aukinni hlutdeild sveitarfélagsins í útgjöldum ríkisins til menntamála, til dæmis til rannsóknarstarfa.

Pálína Margeirsdóttir, Framsóknarflokki, lýsti yfir ótta á skorti á iðnaðarmönnum og hvatti til þess að verknámi yrði áfram haldið á lofti innan sveitarfélagsins. Þá þyrfti að koma viðveru barna eftir skólatíma í betra horf, oft væru of mörg börn í of litlu plássi.

Flest framboðinn hafa einnig heitið því að láta einangra Fjarðabyggðarhöllina til að tryggja meiri hita í henni og auka nýtingarmöguleika, bæði til sýninga og almenningsíþrótta. Fundargestir spurðu út í þau áform sem og áform um byggingu nýs íþróttahúss á Reyðarfirði og að það yrði opið meira en sjö mánuði á ári. „Ég er sammála því að íþróttahús sem er bara opið sjö mánuði á ári er ekki boðlegt,“ sagði Einar Már.

Guðmundur Þorgrímsson, Miðflokki, sagðist telja mikilvægara að byrja á íþróttahúsi á Eskifirði. „Það er okkar mat að það sé verr farið.“ Þegar gengið var á hann sagðist hann þó tilbúinn að endurskoða forgangsröðunina en hafnaði fullyrðingum úr sal um að hún væri órökstudd.

Jens Garðar sagði að enn væri þó nokkuð í nýtt íþróttahús á Eskifirði en gert væri ráð fyrir því í skipulagi.

Íbúar spurðu einnig út í fráveitumál, hvort áætlanir væru um að koma þeim í lag í samræmi við reglur. Eydís Ásbjörnsdóttir, oddviti Fjarðalistans, notaði tækifærið til að gagnrýna skort á langtímaáætlun. „Það eru ekki til langtímaáætlanir um veitur fyrir sveitarfélagið.“

Ragnar Sigurðsson, Sjálfstæðisflokki, sagði að áætlaður kostnaður við að koma fráveitunum í stand væri rúmlega þrír milljarðar króna. Þá vinnu verði ekki eingöngu sveitarfélaganna að vinna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.