Þingmaður kallar eftir vilja þjóðarinnar um framhald flugvallarins í Vatnsmýrinni

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, kallar eftir vinnu ólíkra hagsmuna að framtíð innanlands- og sjúkraflugs. Sendingar á milli horna skili engum árangri.


Líneik Anna tók málið upp á Alþingi fyrir helgi í kjölfar ályktunar bæjarráðs Fjarðabyggðar um mótvægisaðgerðir ríkisins þar sem svokallaðri neyðarbraut á Reykjavíkurflugvelli hefur verið lokað. Á sama tíma ráðast heimaaðilar í Fjarðabyggð í uppbyggingu Norðfjarðarflugvallar.

Líneik spurði þar út í ákvarðanir fyrri ráðherra samgöngumála varðandi land flugvallarins í Vatnsmýrinni.

„Nýjasta uppákoman þar sem borgin kaupir land af ríkinu, að því er virðist á grunni umdeilanlegra heimilda, er í hæsta máta undarleg.

Hvernig má það vera að einstakir ráðherrar geti tekið ákvarðanir og undirritað skuldbindingar sem hafa jafn afdrifaríkar afleiðingar fyrir almannaöryggi í landinu og raun ber vitni án þess að setja samtímis af stað vinnu við mótvægisaðgerðir? Það er ekki ásættanlegt að á suðvesturhorninu sé engin norðaustur-/suðvesturflugbraut.“

Líneik Anna kallaði eftir „afgerandi vilja þjóðarinnar“ um hvort flugvöllur og miðstöð innanlands- og sjúkraflugs verði áfram í Vatnsmýrinni.

Eins verði stjórnvöld að koma af stað vinnu hagsmunaaðila um lausn flugvallarmála. „Það mun aldrei leiða til lausnar að hver hrópi í sínu horni og síðan séu mál rekin fyrir dómstólum þess á milli.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.