„Þau vilja hvergi annars staðar vera“

„Nemendunum þykir þetta allt saman mjög merkilegt og þau stækkuðu talsvert við flutiniginn,“ segir Lísa Lotta Björnsdóttir, leikskólastjóri á Lyngholti á Reyðarfirði, en næstelsti árgangur skólans er nú fluttur í Félagslund, gamla félagsheimilið á staðnum.


Stefnt hefur verið á stækkun á sjálfu leikskólahúsnæðinu en Lyngholt er í þremur húsum í dag, en elstu nemendurnir hafa verið í grunnskólanum undanfarin ár.
„Við erum svo sannarlega ekki hætt við það stækkun, en ákveðið var að ráðast í þessar framkvæmdir til þess að geta haldið áfram með núverandi starfsemi, en Fjarðabyggð hefur þá stefnu að koma börnum að við tólf mánaða aldur. Ef við hefðum ekki farið út í þessa lausn hefðum við ekki getað tekið við nýjum börnum eftir áramót. Með því að færa þessi þrettán börn hingað getum við tekið inn öll börn fram að sumarfríi og svo áfram eftir það.

Auðvitað er þetta hellings hlaup fyrir starfsfólkið, en allur undirbúningur fer fram í Lyngholti sem og útivist barnanna. Það koma einnig allir í kaffi þangað til þess að við náum að halda hópnum saman. Starfsfólkið er jákvætt í þessum aðstæðum og allir hjálpast að við að gera þetta sem best. Með stækkuninni fáum við góða starfsmannaaðstöðu og öll umgjörð um fólkið okkar verður betri.“

„Hér hafa allir nóg pláss“
Lísa Lotta segir starfsfólk og nemendur í Lundarseli himinlifandi. „Hér hafa allir nóg pláss, en þetta er langstærsta deildin af öllum miðað við nemendafjölda, en sem stendur eru hér aðeins 13 börn. Þau endurtaka á hverjum morgni að þetta sé skólinn þeirra, þau vilja hvergi annars staðar vera.“

Ráðast þurfti í nokkrar framkvæmdir fyrir flutninginn. „Hér voru að sjálfsögðu tekin gífurlega mikil og góð þrif. Salnum var skipt í tvennt, hljóðvist bætt, dásamlega fallegir gluggar settir á salinn, salerni og eldhús lagað og allt málað. Við sjáum fram á skemmtilega þróun á leikskóladeild en hérna verða svo 24 börn í haust.“
 
Ef fram fer sem horfir verða fleiri nemendur í Lyngholti í haust en nokkurntíman áður. „Núna erum við með 109 nemendur, en elsti árgangurinn sem fer í skóla í haust eru 28, en 21 barn fæddist á síðasta ári. Tölurnar eru alltaf á reiki, einhverjir hætta en til dæmis hafa bæst við fimm nemendur, bara núna í janúar. Við búumst við að nemendur verði um 120 í vor og það er tala sem við höfum aldrei séð áður, en það er virkilega gaman að fylgjast með samfélaginu okkar vaxa svo hratt og yngjast.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.