„Það verða allir mjög kátir þegar menn finnast á lífi eftir svona langa leit,“

Vélsleðamenn björgunarsveita fundu rjúpnaskyttu sem leitað hafði verið að síðan á föstudagskvöld á gangi niður Köldukvíslardal í áttina að Fagradal klukkan rúmlega tíu í morgun.


„Þetta svæði er þægilegt til leitar á sleðum og var möguleiki að einhver væri þarna. Það fóru sleðar þarna um í gær en skyggnið leyfði ekki að svæðið væri leitað almennilega. Það var mun betra í morgun og við gátum sett af stað marga sleða til að leita,“ segir Eiður Ragnarsson í svæðisstjórn björgunarsveitanna á Austurlandi.

„Við nýttum nóttina til að skipuleggja svæðið fyrir leitarhópa dagsins. Við settum mikinn kraft í leik á sleðum og fórum út fyrir þann hring sem leitað var á í gær. Hann var heldur utar en við reiknuðum með, kominn út fyrir það sem kallað er norm í svona leitaraðgerðum.“

Umfangsmikil leit

Maðurinn fór ásamt tveimur vinum sínum til veiða upp frá sumarbústaðabyggðinni á Einarsstöðum á föstudagsmorgun. Hann skildi við þá á Ketilsstaðaöxl eftir hádegið en eftir það fór að bæta í snjóinn og skyggni versnaði verulega.

Björgunarsveitir voru kallaðar út um klukkan átta á föstudagskvöld þegar ljóst var að maðurinn skilaði sér ekki til byggða. Síðan hefur hans verið leitað en þar til í morgun voru aðstæður erfiðar út af snjókomu og lélegu skyggni.

Áætlað er að 200 manns hafi virkið við leitina á hverjum tíma og voru komnar austur nánast björgunarsveitir af öllu landinu. Sleðahópurinn sem keyrði fram á manninn var meðal annars samsettur af mönnum frá Dalvík, Kópavogi og Garðabæ.

Maðurinn gróf sig í fönn og hlýjað sér ásamt hundi sem hann var með honum á göngunni. Vélsleðamennirnir komu sem fyrr segir auga á tvo dökka díla á hreyfingu í fjarska rétt upp úr klukkan tíu í morgun sem reyndust vera maðurinn og hundurinn. Maðurinn var kaldur en að öðru leyti í góðu ásigkomulagi enda vel búinn og vanur útivistarmaður og mun hundurinn einnig hafa það fínt.

Vel búnir menn geta bjargað sér lengi

Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti hann og flutti til Egilsstaða þar sem hann fór í læknisskoðun áður en hann flaug áfram suður til Reykjavíkur í hádeginu. Vélsleðamennirnir máttu ekki verið mikið seinna á ferðinni því skyggni versnaði verulega skömmu eftir að maðurinn fannst.

„Þeir keyra fram á hann og tilkynna okkur í stjórnstöð að hann sé fundinn á lífi. Sé kaldur en nokkuð hress miðað við hvað hann er búinn að vera lengi á ferðinni.

Stemmingin hér í stjórnstöðinni var mjög gleðileg. Það verða allir mjög kátir þegar menn finnast á lífi eftir svona langa leit,“ segir Eiður.

Kom á óvart að hann skyldi finnast í morgun? „Ef menn eru vel búnir geta þeir bjargað sér ótrúlega lengi. Hann var vel búinn og vel á sig kominn.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.