„Þessar heimildir eru ómetanlegur fjársjóður“

„Ég hef mikinn áhuga á því að halda sögu staðarins á lofti og finnst það almennt mjög þarft. Hlutur kvenfélagsins í þeirri sögu er ótrúlega stór,“ segir Kristbjörg Sunna Reynisdóttir, en hún hefur nýlokið við að skrásetja sögu Kvenfélags Reyðarfjarðar sem fagnaði 100 ára afmæli sínu síðastliðinn föstudag.



Saga Kvenfélags Reyðarfjarðar var skrifuð í tilefni af hundrað ára afmæli félagsins sem stofnað var þann 3. desember 1916 og hefur starfað óslitið síðan. Mikið er til af heimildum um starf Kvenfélags Reyðarfjarðar og eru meðal annars allar fundargerðabækur félagsins til frá stofnun þess, uppfullar af lifandi samtímaheimildum. Bókin var prentuð hjá Héraðsprenti.

„Ritarar félagsins í gegnum tíðina eiga heiður skilinn fyrir hversu ítarlegar og fróðlegar heimildir er að finna í þessum bókum, fyrir þeirra tilstilli er saga félagsins varðveitt,“ segir Kristbjörg Sunna, en bókin er að mestu unnin upp úr þeim auk annarra heimilda og viðtala við núlifandi kvenfélagskonur.

„Þessar heimildir eru ómetanlegur fjársjóður en í gegnum skrifin lærði ég margt um sögu staðarins, fólkið, tíðarandann, sögu kvennanna og jafnvel kvennasögu almennt. Margt sem ég las í fundargerðunum leiddi mig út í frekara grúsk í stærra samhengi.

Hugmyndin að því að ég myndi taka sögu kvenfélagsins saman kom fyrst upp í spjalli okkar Álfheiðar Hjaltadóttur fyrir tíu árum. Þá stefndi ég á nám í sagnfræði við Háskóla Íslands og hún stakk upp á þessu lokaverkefni. Fimm árum síðar þegar þegar ég hafði lokið allt öðru námi hringdi Álfheiður og spurði hvort hún mætti samt sem áður stinga upp á því að ég yrði fengin til að skrifa söguna þó ég væri ekki orðin sagnfræðingur og eftir smá umhugsun samþykkti ég þa.“


Kvenfélaginu var ekkert óviðkomandi

Kristbjörg Sunna segir að það sem standi helst uppúr eftir vinnuna sé hve margt það hafi verið sem kvenfélagskonur létu sig varða.

„Þær unnu að því að fá hjúkrunarkonu til starfa í þorpinu fyrir 90 árum en það tók þær tvö ár í undirbúningi. Þær stofnuðu líka fyrsta sjúkrasamlagið sem starfaði í hreppnum. Það var ekkert sem var Kvenfélagi Reyðarfjarðar óviðkomandi, hvort sem það voru líknar- og mannúðarmál, skólamál, heilbrigðismál,húsnæðismál eða félagslífið á staðnum. Konurnar hikuðu aldrei við að fara á fund hreppsnefndar og fylgja málum sínum eftir. Og enn þann dag í dag starfar félagið af sama krafti og styður við hin ýmsu málefni. Eftir að hafa tekist á við þetta verkefni er mér mjög hlýtt til kvenfélagskvennanna.“


Mikið þakklæti og ánægja meðal kvenfélagskvenna

Kristbjörg Sunna segist bæði stolt og þakklát fyrir að hafa fengið þetta tækifæri og finni fyrir miklu þakklæti og ánægju kvenfélagskvenna og miklum áhuga á sögunni.

„Kvenfélagskonur eru almennt ekki að státa sig af verkum sínum svo það var eflaust af hinu góða að fá utanaðkomandi manneskju til að taka söguna saman. Það kom þó fyrir í ferlinu að ég hugsaði að betra hefði verið ef ég þekkti meira til innra starfs félagsins en með því að flétta inn í textann viðtöl sem Kristborg Bóel tók, við allmargar kvenfélagskonur, og spyrja þær sem unnu með mér á lokasprettinum hafðist þetta allt saman.“

Af þessu tilefni ætlar Kvenfélag Reyðarfjarðar að vera í Molanum á Reyðarfirði næstkomandi föstudag milli klukkan 15:00 og 18:00 þar sem bókin verður kynnt.

Hægt verður að kaupa bókina í Molanum á föstudaginn en hún verður einnig til sölu í Landsbankanum og Íslandsbanka á Reyðarfirði fram að jólum auk þess sem hægt er að nálgast upplýsingar gegnum eftirfarandi aðila:

Sigurbjörgu Hjaltadóttur: 899 5306

Jóhönnu  Sigfúsdóttur: 474 1153

Ingunni Karítas Indriðadóttur:844 3662

This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.