Telja forkaupsrétt að nýjum bát Loðnuvinnslunnar ekki hafa verið virtan

Bæjarráð Grindavíkur útilokar ekki að láta á það reyna hvort sveitarfélagið geti nýtt forkaupsrétt sinn að línuveiðibátinum Óla á Stað og 1000 tonna bolfiskkvóta sem Loðnuvinnslan keypti í síðustu viku.


Báturinn, sem hlotið hefur nafnið Sandfell, var áður í eigu Stakkavíkur í Grindavíkur. Í bókun ráðsins segir að Stakkavík hafi boðið sveitarfélaginu forkaupsrétt á bátnum og aflaheimildum 1. desember síðastliðinn.

Boðið hafi verið afturkallað tveimur vikum síðar þar sem fyrirvara stjórnar Loðnuvinnslunnar um kaupin hafi ekki verið aflétt. Því frestaði bæjarstjórn afgreiðslu málsins á fundi sem haldinn var 15. desember.

Fyrirvaranum var aflétt degi síðar og þann 15. janúar fengu bæjaryfirvöld bréf frá lögmanni Loðnuvinnslunnar um að forkaupsréttartími væri liðinn.

Bæjarráðið heldur því hins vegar fram að skort hafi tilkynningu frá Stakkavík um að sölutilboðið væri gilt og því talið að enginn kaupsamningur væri fyrir hendi. Þann 27. janúar hafi borist vitneskja um hann sem staðfest hafi verið á fundi með lögmönnum fyrirtækjanna tveggja fyrir viku.

Í bókun bæjarráðs er framganga fyrirtækjanna hörmuð. Tekið er fram að bæjarstjórnin hafi aldrei fjallað efnislega um málið þar sem sölutilboðið hafi verið afturkallað um miðjan desember. Nú sé lagaleg óvissa um hvort forkaupsrétturinn sé fyrri hendi og inngrip sveitarfélagsins gæti haft í för með sér „óvissu og tjón“ fyrir málsaðila.

Í svari við fyrirspurn Austurfréttar kvaðst Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri, ekki geta svarað því hvort bókunni yrði fylgt nánar eftir. Bæjarstjórn fundar í lok mánaðarins en ekki er ljóst hvort málið verði þar á dagskrá.

Vísað er í 12. grein laga um stjórnun fiskveiða þar um að sveitarstjórn í sveitarfélagi seljanda eigi forkaupsrétt að skipi eigi að selja það til útgerðar í öðru sveitarfélagi. Vestmannaeyjabær lét reyna á það ákvæði þegar Síldarvinnslan keypti Berg/Huginn og tapaði málinu í Hæstarétti.

Sandfellið fór í sínu fyrstu róðra um helgina. Landaði 12,5 tonnum á laugardag og sex tonnum í gær.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.