Orkumálinn 2024

Tæplega þriggja milljarða hagnaður Síldarvinnslunnar

2,9 milljarða hagnaður varð af rekstri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á síðasta ári. Aukning var í framleiðslu og afla en samdráttur í verðmæti.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem send var út að loknum aðalfundi fyrirtækisins sem haldinn var í Neskaupstað í dag.

Heildartekjur Síldarvinnslusamstæðunnar voru 18,5 milljarðar samanborið við 22,5 milljarða árið á undan en rekstrargjöld 13,8 milljónir. Hagnaður fyrir skatta var 3,5 milljarðar samanborið við 6,2 milljarða árið áður.

Útgerðin gekk vel, afli bolfisskipa fyrirtækisins var um 20.000 tonn og verðmæti hans 4,6 milljarðar. Uppsjávarskipin veiddu 143 þúsund tonn að verðmæti 3,7 milljarða. Heildaraflaverðmætið var því 8,3 milljarðar og aflamagnið 163.000 tonn.

Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar tóku á móti 197 þúsund tonnum af hráefni. Framleidd voru 40 þúsund tonn af mjöli og 11 þúsund tonn af lýsi að verðmæti 7,3 milljarða.

Í uppsjávarvinnsluna var landað 47 þúsund tonnum af hráefni. Framleiddar afurðir voru tæp 39 þúsund tonn. Þar vega síldarafurðir þyngst og síðan makrílafurðir og loks loðnuafurðir. Verðmæti framleiðslunnar var 5,6 milljarðar króna. Um frystigeymslurnar fóru 64 þúsund tonn af afurðum á árinu.

Samtals nam framleiðsla á afurðum rúmum 105 þúsund tonnum á árinu 2017 að verðmæti 16,3 milljarðar króna.

Ef árið er borið saman við árið á undan, var framleiðsluaukning 16% en á sama tíma samdráttur í tekjum um 11%. Þannig var um 25% verðlækkun að meðaltali á afurðum að ræða. Sömu sögu er að segja af útgerðinni þar var 18% aukning í aflamagni en 14% samdráttur í aflaverðmætum skipanna.

Fjárfestingar námu 850 milljónum, þeirra stærst samningur við norska skipasmíðastöð um smíði tveggja nýrra togskipa sem leysa Vestmannaey og Bergey af hólmi. Gert er ráð fyrir að fyrra skipið verði afhent í mars á næsta ári og það seinna í maí. Á móti var togarinn Barði NK seldur til Rússlands.

Síldarvinnslan sjálf greiddi 3,3 milljarða króna í skatt, tekjuskattur var 1,32 milljarðar og veiðigjöld 530 milljónir. Hjá samstæðunni störfuðu alls 360 manns í fyrra.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.