Tæplega 60 kindum lógað vegna vanfóðrunar

Matvælastofnun aflífaði á föstudag tæplega 60 kindur á austfirsku sauðfjárbýli. Féð var illa á sig komið vegna vannæringar og ekki hugað líf. Stofnunin hefur ítrekað gert athugasemdir við aðbúnað á bænum.

Í tilkynningu stofnunarinnar kemur ekki fram hvar í fjórðungnum býlið er en sagt að í vetur hafi verið haft náið eftirlit með býlinu eftir ítrekuð afskipti undanfarin ár sökum margvíslegrar umhirðu. Alls var 58 kindum lógað.

„Við eftirlit stofnunarinnar í mars höfðu kröfur stofnunarinnar um úrbætur ekki verið virtar og ástand versnað. Þriðjungur fjárins sem var holdastigað reyndist vannærður (holdastig 1,5 eða neðar af 5 á holdastigunarkvarða en 2-4 telst viðunandi eða gott). Ástæða vannæringar er vanfóðrun og léleg heygæði. Ljóst var að margar kindur höfðu orðið fyrir varanlegum skaða og að þeim yrði ekki bjargað.

Við mat á niðurstöðum holdastigunar þarf að taka tillit til aldurs, meðgöngu og árstíma. Á þessum árstíma eru ær á síðari hluta meðgöngu, fóstrin taka mikið til sín og því er fóðurþörf mikil og ekki síst eftir burð til að framleiða mjólk. Af þessum ástæðum kemur vannæring hratt fram og erfitt að snúa þeirri þróun við.“

Áfram verður unnið að úrbótum fyrir féð sem eftir lifir á bænum og eru frekari aðgerðir fyrirhugaðar síðar í mánuðinum með það að markmiði að tryggja velferð fjárins eins og kostur er, að því er fram kemur í yfirlýsingu MAST.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.