Tækifæri til að þróa viðskiptahugmyndir undir leiðsögn

Ástu Kristín Sigurjónsdóttir, klasastjóri Íslenska ferðaklasans, segir gríðarleg verðmæti felast í því að taka þátt í svokölluðum viðskiptahraðli sem Icelandic Strartups stendur fyrir í samstarfi við Íslenska ferðaklasann.



Startup Tourism er tíu vikna viðskiptahraðall fyrir viðskiptahugmyndir tengdar þróun og nýsköpun í ferðaþjónustu. Verkefnin eða fyrirtækin geta verið af hvaða toga sem er svo lengi sem þau tengjast helstu markmiðum verkefnisins sem eru m.a leiðir til að stuðla að dreifingu ferðamanna um landið allan ársins hring, nýjar tæknilausnir til að auðvelda fyrirtækjum daglegan rekstur og leiðir til að efla innviðauppbyggingu sem svo sárlega er kallað eftir í ferðaþjónustu.

Viðskiptahraðall er námskeiða eða fræðsluform sem hraðar tíma sem tekur að koma viðskiptahugmynd frá hugmyndastigi á framkvæmdastig. Með því að þjappa þekkingu, fræðslu og þjálfun í markvissan pakka á styttri tíma með meiri gæðum en annars tæki.


Um hvað ræðir?

• Viðskiptahraðall fyrir hugmyndir og ný fyrirtæki í ferðaþjónustu

• Tíu fyrirtæki verða valin og fá aðstoð og stuðning yfir tíu vikna tímabil

• Samstarfsverkefni Icelandic Startups, Bláa Lónsins, Íslandsbanka, Vodafone, Isavía og Íslenska ferðaklasans

• Leitað er að afþreyingar- og tæknilausnum og lausnum sem styrkja innviði greinarinnar

• Markmið verkefnisins er að hvetja til nýsköpunar á sviði ferðaþjónustu, styrkja stoðir nýrra fyrirtækja, fjölga afþreyingarmöguleikum, stuðla að dreifingu ferðamanna víðsvegar um landið – allan ársins hring og styrkja innviði greinarinnar

• Umsóknarfrestur til 16. janúar en hraðalinn hefst 16. febrúar


Verður að hugsa þetta sem skóla

„Þarna fá frumkvöðlar aðstoð við að koma hugmyndinni sinni frá hugmyndastigi yfir á framkvæmdastig eftir markvissum aðferðum með hópi fólks sem er í sömu sporum. Þessar tíu vikur eru einskonar æfingabúðir þar sem fengnir eru helstu sérfræðingar til aðstoðar og teymin sjálf mynda síðan suðupott sín á milli þar sem skipst er á þekkingu og þjálfun.

Eðlilega finnst mörgum það erfitt að hugsa sér að þurfa að fara í burtu í tíu vikur frá núverandi starfi eða verkefnum en einn af mikilvægustu þáttunum hraðalsins er að byggja upp öflugt tengslanet og að fjárfesta í þeim tíma sem tekur að koma viðskiptahugmyndinni sinni með faglegum hætti á framfæri. Það verður því að hugsa þetta með þeim hætti að um skóla sé að ræða og að útkoman verði margfalt verðmætari en það myndi taka mann einann í sínu horni á miklu lengri tíma.

Við leitum að fjölbreyttum hugmyndum innan ferðaþjónustu til þátttöku en markmið verkefnisins er að fjölga afþreyingarmöguleikum til ferðamanna, styrkja innviði greinarinnar og stuðla að dreifingu ferðamanna um allt land, allan ársins hring. Með ört vaxandi fjölda ferðamanna er jafnframt nauðsynlegt að hvetja til nýsköpunar á sviði ferðaþjónustu og styrkja stoðir nýrra fyrirtækja í greininni,“ segir Ásta Kristín.


Umsóknarfrestur rennur út á mánudaginn

Umsóknarfrestur í Startup Tourism rennur út 16. janúar næstkomandi en verkefnið er nú haldið í annað sinn. Startup Tourism er tíu vikna viðskiptahraðall þar sem tíu valin fyrirtæki í ferðaþjónustu fá tækifæri til að þróa áfram viðskiptahugmyndir sínar undir leiðsögn reyndra frumkvöðla, fjárfesta og annarra sérfræðinga þeim að kostnaðarlausu.

Meðal fyrirtækja sem tóku þátt í verkefninu í fyrra voru fyrirtækin Jaðarmiðlun sem ætla að vekja álfa til lífsins með aðstoð sýndarveruleika, Bergrisi sem þróar hugbúnað og vélbúnað sem auðveldar sölu að hverskyns þjónustu eins og salernum og bílastæðum og Coldspot sem býður upp á stafrænar afeitrunar ferðir (digital detoxing) á Vesturlandi.

Startup Tourism er samstarfsverkefni Isavia, Íslandsbanka, Bláa Lónsins og Vodafone, sem fjármagna verkefnið, Icelandic Startups sem sér um framkvæmd verkefnisins og Íslenska ferðaklasans.

Verkefnið hefst 16. febrúar og fer fram í Reykjavík. Opið er fyrir umsóknir á heimasíðun Startup Tourism www.startuptourism.is

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.