Sveitarfélagið fellst ekki á að borga skaðabætur fyrir skemmdir á lóð

Sveitarfélagið Fljótsdalshérað hefur hafnað kröfu lóðareiganda í Fellabæ um skaðabætur fyrir skemmdir á lóðum hans við framkvæmdir. Það mun þó láta laga þær skemmdir sem sannarlega urðu vegna gatnaframkvæmda.


Eigandi tveggja lóða við Lagarbraut í Fellabæ sendi sveitarfélaginu nýverið bréf þar sem hann krafðist skaðabóta vegna skemmda á lóðunum við gatnaframkvæmdir.

Á annarri lóðinni hafi verið rifin niður bæði girðing og skjólveggir, á hinni lóðinni trjáplöntur og runnar rifnar upp með stórvirkum vinnutækjum. Að auki hafi verið lagður vegstúfur á þeirri lóð án vitneskju eigandans.

Lóðareigandinn krefur sveitarfélagið um reist verði girðing í stað þeirrar sem tekin var niður, að vegbúturinn verði fjarlægður og aðrar skemmdir á lóðinni lagfærðar..

Þá krefur hann sveitarfélagið um 800 þúsund krónur í skaðabætur vegna skemmda á lóðunum og subbulegs viðskilnaðar verktaka.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd sveitarfélagsins hefur hafnað skaðabótakröfunni en falið starfsmönnum þjónustumiðstöðvar að lagfæra þær skemmdir á lóðunum sem sannarlega urðu vegna framkvæmda við götuna.

Þær upplýsingar fengust hjá Fljótsdalshéraði í morgun að ekki hefði enn verið farið í lagfæringarnar. Það sé þó ofarlega á verkefnalistanum og hefjist vonandi í lok sumars.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.