Orkumálinn 2024

Síldarvinnslan hefur verið lánsöm með öflugt starfsfólk og sterkt bakland

Í dag eru 60 ár liðin síðan heimamenn í Neskaupstað komu saman og stofnuðu Síldarvinnslunnar. Núverandi framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir öflugt bakland hafa skipt máli til að fyrirtækið yrði eitt öflugasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins í dag.

„Síldarvinnslan hefur gengið í gegnum öldudali eins og íslenskur sjávarútvegur. Það var ekki sjálfgefið að fyrirtækið héldi velli milli 1980 og 90, frekar en önnur sjávarútvegsfyrirtæki. Á ákveðnu tímabili var ekki sjálfgefið að Síldarvinnslan ætti fyrir launagreiðslum.“

Þetta rifjar Gunnþór Ingvason, sem stýrt hefur fyrirtækinu í tíu ár upp í viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans. „Menn gleyma því stundum að fyrir daga kvótakerfisins var sjávarútvegurinn baggi á þjóðinni, gengið var fellt aftur og aftur til að bjarga greininni.

Gæfa Síldarvinnslunnar hefur hins vegar falist í afburða starfsfólki og framsýnum stjórnendum og öflugu baklandi í samfélaginu í Neskaupstað og saman hefur þetta siglt fyrirtækinu í gegnum þessa öldudali.“

Reynst rétt að byggja upp í uppsjávarvinnslu

Síldarvinnslan er næststærsta fyrirtæki Austurlands, á eftir Alcoa Fjarðaáli. Samkvæmt lista Keldunnar yfir stærstu fyrirtæki landsins er Síldarvinnslan í 30. sæti með rúmlega 21 milljarðs veltu í fyrra. Fyrirtækið er næst á eftir HB Granda á listanum og eru það stærstu sjávarútvegsfyrirtækin. Í dag er Síldarvinnslan þriðja kvótahæsta félag landsins.

„Það hefur reynst rétt að byggja upp í uppsjávarvinnslu. Á því sviði erum við með öflugt fyrirtæki í dag og með mestu afkastagetuna.

Uppsjávarfiskurinn er sveiflukenndur. Til að fjölga eggjum í körfunni fjárfestum við í bolfiskheimildum til að tryggja útgerð bolfiskskipanna og treysta stöðu fyrirtækisins sem alhliða sjávarútvegsfyrirtækis. Í dag skiptast aflaheimildirnar nokkurn veginn jafnt í uppsjávarfisk og bolfisk.“

Síldarvinnslan hefur á undanförnum fimm árum keypt útgerðarfélagið Berg-Hugin í Vestmannaeyjum, Gullberg á Seyðisfirði og kvóta af Stálskipum í Hafnarfirði.

„Síðustu ár hafa einkennst af hagfelldum ytri skilyrðum fyrir íslenskan sjávarútveg, sem við höfum nýtt til að styrkja stoðir félagsins. Ég á eftir að taka niðursveifluna en hún er farin að banka hressilega á dyrnar. Umhverfið hefur gjörbreyst til hins verra á stuttum tíma og það þarf að takast á við það.“

Tækniframfarir margfalda afköst

Margt hefur borið til tíðinda á 60 árum og mikið breyst. Tækninni hefur fleygt fram og útlit er fyrir að þannig verði áfram.

„Ég hefði ekki séð það fyrir mér fyrir tíu árum að við myndum frysta 800 tonn á sólarhring til manneldis en sú er samt staðan. Það er mikil framþróun í bolfiskvinnslu með nýjum skurðarvélum. Nýjasta tækni í bolfiski eykur afköst á hvern mann í frystihúsi um 40-50% sem þýðir að það þarf 40-50% færra fólk.“

Hann hefur samt ekki áhyggjur af að fækkunin í framleiðslustörfunum komi niður á samfélaginu í Fjarðabyggð.

„Við verðum að átta okkur á að tæknin getur líka af sér önnur störf. Samfélagið í Fjarðabyggð tók mjög jákvæðum breytingum með tilkomu álversins, það varð mikil endurnýjun, ungt og menntað fólk kom heim. Ég tala nú ekki um nýju Norðfjarðargöngin, þau munu gjörbylta atvinnumarkaðinum.

Ég held að með þeim breytist samfélagsmyndin mun meira en við sjáum fyrir. Það er ekki til farsældar að afneita þróuninni, heldur að nýta tækifærin sem hún færir okkur.“

Að nýta hráefnið sem best

Þótt blikur séu á lofti horfir Gunnþór björtum augum til framtíðar Síldarvinnslunnar og vonast til að enn meiri verðmæti náist út úr hráefninu.

„Ég sé fyrir mér að við verðum áfram leiðandi í veiðum og vinnslu uppsjávartegunda. Vonandi kemur að því að við vinnum enn verðmætara prótín úr þeim prótínauðlindum sem við höfum.

Við munum fylgjast áfram með og þróa okkur í takt við það sem er að gerast. Endurnýjunin á bolfiskskipunum er stórt verkefni, þar ber okkur skylda til að leita leiða til að gera betur. Það er ljóst að tæknistigið í bolfiskvinnslunni þróast hratt þessi misserin og þar þarf að fylgjast með.

Fyrirtæki eru sífellt að taka betur á öryggismálum og ég held að Síldarvinnslan hafi verið fyrst sjávarútvegsfyrirtækja til að ráða í stöðu öryggisstjóra. Við kynntum nýlega nýja starfsmannastefnu og erum að fylgja henni eftir.

Fiskimjölsverksmiðjurnar hafa verið óbreyttar í nokkra áratugi og við erum með verkefni í gangi sem fjallar um hvernig þær munu líta út eftir tíu ár. Við vinnum með MATÍS, háskólastofnunum og erum með doktorsnema hjá okkur í ýmsum verkefnum. Vonandi kemur eitthvað út úr allri þeirri vinnu. Við viljum vera meðvituð um hvaða hráefni við höfum í höndunum og hvernig við getum nýtt það sem best.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.