Orkumálinn 2024

Sigmundur Davíð: Aðstæður í hagkerfinu betri en ég þorði að vona þegar við tókum við

Forsætisráðherra segir aðstæður í íslensku efnahagslífi almennt góðar og þær verði að nýta vel í lok kjörtímabilsins. Hann boðar aðgerðir í húsnæðismálum og verðtryggingu á næstunni.


„Aðstæður nú eru betri en ég þorði að vona þegar við tókum við. Mælikvarðarnir eru jákvæðir. Það er stöðugleiki, verðbólga lág, ríkissjóður hefur greitt niður skuldir og þar með lægri vextir sem ríkissjóður þarf að borga

Við höfum nýtt fyrstu þrjú ár kjörtímabilsins vel og það þarf að nýta fjórða árið vel til að klára stóru ókláruðu efnahagsmálin og byggja upp og sækja fram í öðru sem hefur verið vanrækt. Þar eru byggðamálin lykilatriði,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, á opnum fundi Framsóknarflokksins á Egilsstöðum fyrir skemmstu.

Vinnan gengur betur

Sigmundur Davíð sagði að svigrúmið yrði meðal annars nýtt til að bæta kjör eldri borgara og öryrkja. Áhersluna lagði hann á „meiri tækifæri til að klára ókláruðu efnahagsmálin.“ Þar talaði hann um „þríhyrning efnahagsmála“ sem gengur út á endurskipulagningu fjármálakerfisins, húsnæðiskerfisins og afnám verðtryggingar. „Ríkissjóður þurfti að komast í betri stöðu til að klára þessi mál.“

Hann sagði þingflokkana hafa sett saman hóp fólks til að koma með sameiginlega lausn. „Sú vinna hefur gengið betur síðustu vikur en áður og hópurinn komist hratt áfram.“

Ýmis mál hafi þurft að leysa fyrst, svo sem gera upp slitabúin og losa um gjaldeyrishöft. Skrefin hafi verið erfið en þegar þau hafi verið stigin sé hægt að taka næstu, svo sem skipulag húsnæðiskerfisins. Hann sagði afnám Íslandslána, sem eru verðtryggð lán með föstum raunvöxtum til langs tíma svo sem 25 eða 40 ára, næst á dagskrá.

Hann kallaði húsnæðismálin „prinsippmál“ sem ekki yrði gefið. Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður flokksins, kallaði húsnæðismálin „stóru málin“ á þinginu. Þar væri unnið með fjögur frumvörp og inn í þau tengdust mismunandi áherslur stjórnarflokkanna. Ríkisstjórnin hefði skuldbundið sig til að endurskoða húsnæðismálin í tengslum við kjarasamninga og að niðurstaða myndi nást á yfirstandandi þingi.

Ólíklegt að Landsbankinn verði seldur

Sigmundur Davíð sagði ólíklegt að ríkið myndi nýta heimild til að selja 28% hlut í Landsbankanum í ár. „Þetta er ekki líklegur sölutími fyrir banka, allra síst á Íslandi,“ sagði Sigmundur og benti á erfiðleika banka víða um heim, meðal annars Deutsche Bank.

Sigmundur velti upp þeim möguleika að hlutur ríkisins í Íslandsbanka yrði seldur fyrr en haldið í hlutinn í Landsbankanum. Menn hefðu hug á að fá erlendan banka banka inn á íslenskan markað. „Ég held það væri kærkomin viðbót ef traustur banki keypti íslenskan banka til að reka. Það væri gott ef norrænn banki keypti og kæmi hingað með erlenda samkeppni.“

Þar til að þetta gerist skipti mestu máli hvernig bankinn sé rekinn. Því sé unnið að nýrri eigendastefnu með áherslu á hlutverk bankanna í íslensku samfélagi.

Þakkaði Árna Páli fyrir

Hann sagði atburðarásina í efnahagsmálum vera „að raðast vel upp.“ Aðspurður um vaxtastefnu Seðlabankans þá sagðist hann löngum hafa verið gagnrýninn á hávaxtastefnu hans en honum væri viss vorkunn því verðtryggingin drægi úr áhrifum vaxtahækkana og því sköpuðu þær ekki sömu viðbrögð hér og annars staðar.

Þá nýtti hann líka tækifærið til að þakka formanni Samfylkingarinnar, Árna Páli Árnasyni, fyrir bréf sem hann sendi flokksfélögum. „Við fengum meðbyr frá honum við að útlista allt sem við gagnrýndum síðustu ríkisstjórn fyrir.“

Sigmundur varði þátttöku Íslands í viðskiptabanni á Rússum sem hann kallaði reyndar „afmarkaðar viðskiptaþvinganir.“ Reynt hefði verið að senda sendinefndir til Moskvu til að biðjast vægðar en þær engar undirtektir fengið. Þótt bannið kæmi niður á Íslendingum væri heldur ekki útgjaldalaust að ætla að horfa á.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.