Sérstæðar upphafsaðgerðir lögreglu: Sóttur með leiguflugi austur á Seyðisfjörð

Lögreglumenn voru sendir austur með leiguflugi til að handtaka Albert Klahn Skaftason, einn þeirra sem síðar var dæmdur fyrir morðið á Guðmundi Einarssyni, eftir að Sýslumaðurinn á Seyðisfirði neitaði að gera það. Endurupptökunefnd úrskurðaði í dag að mál Alberts skyldi tekið upp á ný.


Albert var sakfelldur árið 1980 fyrir að hafa aðstoðað við að flytja og fela líka Guðmundar sem hvarf í lok janúar 1974. Átti hann að hafa verið að Hamarsbraut 11 í Hafnarfirði, þaðan sem Guðmundur hvarf.

Albert var sakaður hafa tekið þátt í að flytja lík Guðmundar, fyrst af Hamarsbrautinni og út í Hafnarfjarðarhraun en síðan flutt það á ný á nýjan stað um sumarið, auk þess aðstoða við að afmá verksummerki.

Sýslumaður neitar rannsóknarlögreglumanni

Albert var handtekinn á Seyðisfirði aðfaranótt Þorláksmessu árið 1975. Í úrskurði endurupptökunefndarinnar, sem birtur var í dag, segir að upphafsaðgerðir lögreglu gagnvart Alberti hafi verið „næsta sérstæðar.“

Albert var þá tvítugur að aldri og var kominn austur til að eyða jólunum með kærustu sinni og tengdafjölskyldu.

Í samantekt nefndarinnar kemur fram að kvöldi 22. desember 1975 hafi sýslumaðurinn á Seyðisfirði hringt í rannsóknarlögreglumann og neitað að handtaka Albert, eins og beðið hafi verið um, nema til kæmi úrskurður eða skeyti.

Það sem ekki var hægt að senda skeytið var ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytisins látinn hringja í sýslumanninn. Skömmu fyrir miðnætti lögðu tveir lögreglumenn af stað úr Reykjavík í leiguflugvél austur í Egilsstaði. Þeir komu með hann í Síðumúlafangelsið klukkan fimm um nóttina.

Spurningarnar byrjuðu strax við handtökuna

Þar var hann settur beint í klefa en yfirheyrður eftir hádegi á Þorláksmessu með réttarstöðu vitnis „þrátt fyrir aðdragandann,“ segir í niðurstöðu nefndarinnar. Í kjölfar yfirheyrslu, þar sem meðal annars var farið með Albert út úr fangelsinu ásamt fimm rannsóknarlögreglumönnum og fulltrúa yfirsaksóknara, var hann leiddur fyrir dómara og úrskurðaður í gæsluvarðhald sem varði í tæpa þrjá mánuði.

Þótt Albert hafi upphaflega játað dró hann síðar í land, jafnvel svo langt að hann gæti ekki fullyrt að hann hefði verið á Hamarsbraut 11 umrætt kvöld. Hann hafði verið í neyslu um nokkurt skeið og átti erfitt með að muna liðna atburði.

Hann sagði að strax við handtökuna á Seyðisfirði hefði lögreglumenn hafið að spyrja hann hvort hann myndi eftir slagsmálum í íbúðinni. Spurningunum var haldið áfram í fluginu suður.

Þar sem hann hafi ekki munað eftir neinum slíkum málsatvikum hafi lögreglumennirnir leitt hann áfram með því að spyrja hvort málsatvik hefðu getað verið þeim þessum hættinum eða hinum. Þeim tilgátum hafi Albert haft tilhneigingu til að jánka.

Framburðir með ólíkindablæ

Til að reyna að hressa upp á minni Alberts á sínum tíma var hann meðal annars dáleiddur af geðlækni á Kleppi. Það hjálpaði lítið. Í skýrslum kemur fram að Albert hafi játað nánast hverju sem upp á hann var borið. Hann skýrði síðar frá því að lögreglumenn hefðu heitið honum að hann slyppi betur ef hann hjálpaði ekki við að koma sök á aðra sakborninga en hótað lengra varðhaldi segði hann ekki frá.

Endurupptökunefndin gagnrýnir harðneskjulegar yfirheyrsluaðferðir lögreglu og ónákvæmar rannsóknaraðferðir.

Í niðurstöðum hennar segir að framburðir dómfelldu um líkflutninginn séu með ólíkindablæ enda hafi þeir frá upphafi verið reikulir um í hvernig bíl það var flutt, hvert var farið með það og hvernig því komið fyrir. Þá hafi þeir ekki verið spurðir út í erfiða færð á svæðinu. Nefndin telur því umtalsverðan vafa á því að játningar um líkflutningana hafi byggst á raunverulegum minningum.

Man enn ekkert

Albert fékk árs fangelsisdóm fyrir sinn þátt í málinu. Hann hefur aldrei tjáð sig um málið opinberlega síðan hann lauk afplánuninni. Hann stofnaði fjölskyldu og starfaði sem meðferðarráðgjafi

Hann féllst á að tjá sig við Gísla Guðjónsson, prófessor í réttarrsálfræði, en Gísli hefur komið að endurskoðun málsins í seinni tíð og leitt að því líkum að játningar hafi verið falskar. „Það sem er miður er að 40 árum síðar veit Albert Klahn ekki hvað gerðist. Hann veit ekki hvort hann er sekur eða saklaus. Getið þið ímyndað ykkur þetta. Eftir 40 ár lifirðu í ótta um að þú hafir verið flæktur í málið og mannst ekki neitt," sagði Gísli samtali við BBC árið 2014.

Auk Alberts telur nefndin tilefni til að taka upp dóma gegn þeim fjórum mönnum sem sakaðir eru um að hafa banað Guðmundi og Geirfinni Einarssyni í einu umfangsmesta og umtalaðasta sakamáli Íslands. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.