Orkumálinn 2024

Segir nálgunarbannið byggt á „100% lygum“

Eiginkona karlmanns á Breiðdalsvík sem úrskurðaður var í nálgunarbann fyrir að leggja þrettán ára dreng í þorpinu í einelti segir úrskurðinn byggja á uppspuna meints fórnarlambs. Illdeilur milli þeirra hafa staðið í tvö ár. Dómari minnti manninn á að sýna aðgætni í samskiptum við börn þótt hann væri að vernda fjölskyldu sína.


Þetta kemur fram í tilkynningu sem Christa Maria Feucht, setti á Facebook í morgun en hún er eiginkona Martin Gasser sem á mánudag var úrskurðaður í nálgunarbann gagnvart þrettán ára dreng sem býr í þorpinu.

Martin er gefið að sök að hafa kallað á eftir drengnum, hjólað í veg fyrir hann og áreitt hann með ýmsum hætti í tvö ár. Nú sé svo við komið að drengurinn þori ekki lengur í skólann af ótta við að rekast en þeir búa í sömu götu. Upphaf málsins má rekja til þess að drengurinn vann skemmdarverk á svokölluðum Plánetustíg sem Martin hafði lagt mikla vinnu í.

Ósátt við að ásakanirnar séu ekki sannreyndar

Í tilkynningu sinni segir Christa að nálgunarbannið byggi „100 á lygum“ og hafi verið neyðaraðgerð eftir að foreldrar drengins hafi tilkynnt yfir tíu atvik til lögreglu. Lögmaður fjölskyldu drengsins fór fram á nálgunarbannið sem síðar var staðfest af lögreglustjóra og þar á eftir héraðsdómi Austurlands. Úrskurðurinn hefur verið kærður til Hæstaréttar.

Christa sakar drenginn um að skálda upp atvik og foreldra hans að tilkynna þau öll til lögreglu. Hún lýsir einnig óánægju með að lögreglan hafi ekki sannreynt frásagnir drengsins.

Christa heldur því fram að drengurinn hafi hótað börnum þeirra hjóna alvarlegum líkamsmeiðingum og hafi ógnað fleiri börnum í þorpinu. Það eina sem þau hafi gert sé að halda börnum sínum frá drengnum.

Hún skýrir frá því að einnig hafi verið farið fram á nálgunarbann á hana en því verið hafnað. Hún segist þrisvar sinnum hafa orðið fyrir árásum af hálfu drengsins.

„Við erum auðvitað bara útlendingar“

Christa segist hafa óskað eftir aðstoð félagsþjónustu þegar málið hófst fyrir tveimur árum síðan og reynt árangurslaust að tala við foreldra drengsins.

Christa og Martin koma frá Sviss en hafa búið á Íslandi árum saman og leitt starfsemi Breiðdalsseturs. Þau hafi hins vegar lítið bakland í þorpinu sem sé erfitt í fjölskylduerjum. „Einnig eiga þau (innsk. fjölskylda drengsins) stórfjölskyldu hér á svæðinu en við erum auðvitað bara útlendingar.“

Nálgunarbannið gildir til fyrsta nóvember. Christa og Martin hafa hins vegar ákveðið að flytja úr landi með börn sín þrjú þann dag. Christa segir þá ákvörðun hafa verið tekna fyrir ári síðan og tengist ekki illdeilunum.

Aðgætni í samskiptum við börn

Eftir því sem Austurfrétt kemst næst mun það eindæmi að fullorðinn einstaklingur sé úrskurðaur í nálgunarbann gagnvart barni fyrir að leggja það í einelti.

Í frétt RÚV frá á þriðjudag var haft eftir Jónasi Wilhelmssyni, yfirlögregluþjóni, að lögreglan hefði frá upphafi reynt að ná sáttum í málinu en án árangurs. Átökin hafi legið niðri um hríð en blossað aftur upp í sumar.

Í frétt RÚV, sem hefur úrskurðinn í heild sinni undir höndum, segir að ekki verði dregið í efa að manninum hafi gengið það eitt til að vernda fjölskyldu sínar og eignir þá leysi það ekki undan þeirri skyldu að sýna aðgætni í samskiptum við börn.

Í úrskurðarorðum dómsins er lagt bann við að Martin komi nær heimili drengsins en sem nemur 10 metrum frá lóðarmörkum. Jafnframt er lagt bann við að hann veiti honum eftirför, nálgist á almannafæri eða setji sig í samband við hann með öðrum hætti.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.