„Samtakamátturinn getur gert ótrúlega hluti“

„Fyrir heildarásýnd ferðamennskunnar er þetta nauðsynlegt skref,“ sagði Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdarstjóri Austurbrúar, en fulltrúar sjö austfirskra ferðaþjónustuaðila voru meðal þeirra sem undirrituðu yfirlýsingu um ábyrga ferðaþjónustu á þriðjudag.



Um 250 fyrirtæki undirrituðu yfirlýsinguna á landsvísu, en tilgangur verkefnisins er að stuðla að því að Ísland verði ákjósanlegur áfangastaður ferðamanna um ókomna tíð sem styður við sjálfbærni fyrir komandi kynslóðir þjóðarinnar. Var hún undirrituð í Háskólanum í Reykjavík og í Austurbrú á Reyðarfirði á sama tíma.

Var það Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð og Íslenski ferðaklasinn, í samstarfi við Íslandsstofu, SAF, Ferðamálastofu, Stjórnstöð ferðamála, Höfuðborgarstofu, Markaðsstofur landshlutanna, Austurbrú og Safetravel sem bauð íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum að sammælast um nokkrar skýrar og einfaldar aðgerðir um ábyrga ferðaþjónustu.

Yfirlýsingin byggir á fjórum meginmarkmiðum sem eru að: Ganga vel um og virða náttúruna, tryggja öryggi gesta og koma fram við þá af háttvísi, virða réttindi starfsfólks og hafa jákvæð áhrif á nærsamfélagið.


Að allir aðilar upplifi sig eiga þátt í verkefninu


„Ég tel að þetta skipti miklu máli fyrir íslenska ferðaþjónustu á næstu árum – að hún sé samstíga í því að að sýna ábyrgð á mörgum sviðum, bæði í sínum eigin rekstri og gagnvart öllum þeim gestum sem koma til landsins.

Menn segja oft að þegar ákveðið hópefli er komið af stað sé líklegra að árangur náist, bæði í að breyta umræðu og starfsháttum. Ég vona svo sannarlega að þetta verði hvatning til þeirra geta gert betur og einnig ákveðin leið fyrir ferðaþjónustuna til að tala saman hvað þarf til þess að geta verið ábyrgur aðili í þjónustu.

Samtakamátturinn getur gert ótrúlega hluti. Að þessu átaki koma saman aðilar úr allskonar áttum, ekki bara fyrirþjónustufyrirtæki, heldur einnig aðilar sem koma að ferðaþjónustu koma á einn eða annan hátt. Það er það sem þarf – að allir upplifi að þeir eigi hlut í þessu mikilvæga skrefi sem verið er að stíga núna,“ segir Jóna Árný.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.