Sammála um að búa vel að börnunum en ekki hvernig

Leikskólamálin eru eitt af stóru málunum á Fljótsdalshéraði fyrir sveitarstjórnarkosningarnar um helgina, ef marka má umræður á framboðsfundi á mánudagskvöld. Framboðin eru hins vegar ekki sammála um hvernig bregðast eigi við fjölgun barna eða búa að yngstu börnunum. Þau tóku hins vegar öll undir að skóladagur leikskólabarna sé í lengra lagi.

Það þarf ekki að koma á óvart að rætt sé um leikskólamálin sem hafa verið nokkuð í umræðunni undanfarin misseri en foreldrar á Héraði hafa undanfarin þrýst á um úrbætur til að fjölga plássum og tryggja að dagvistunarúrræðu séu til staðar þegar börnin nái 12 mánaða aldri.

Framboðin eru sammála um að góð leikskólaþjónusta sé mikilvæg til að ungt fólk velji sveitarfélagið til búsetu. Þau greiðir hins vegar á um leiðirnar.

Þannig boðaði Aðalheiður Björt Unnarsdóttir, frummælandi Framsóknarflokksins, að framboðið vildi taka inn ný börn tvisvar á ári, hækka systkinaafslátt og bæta við fulltrúa á fræðslusviði. Þá yrði að hraða fjölgun leikskólaplássa með tafarlausri stækkun Hádegishöfða í Fellabæ.

Berglind Harpa Svavarsdóttir frá Sjálfstæðisflokki sagði að stækka þyrfti Hádegishöfða, líkt og ákveðið hefði verið, opna nýja leikskóladeild eftir Héraðið og hefja vinnu við nýjan leikskóla sem er á skipulagi suðursvæðis Egilsstaða.

Hrefna Sigurðardóttir Miðflokknum sagði að fjölga þyrfti leikskólaplássunum en varast þyrfti „frímerkjalausnir“ sem gætu orðið dýrar síðar meir. „Verum einu sinni viðbúin aukningu í stað þess að eltast við skottið á sjálfum okkur.“

Mikil fjölgun

Fundargestir sýndu hins vegar mikinn áhuga á að ræða leikskólamálin frekar og spurðu út í fyrirhugaða bráðabirgðadeild á Vonarlandi sem ætlað er að taka á móti yngstu börnunum í haust til að bregðast við fjölgun. Spurt var hvort sú aðstaða teldist boðleg.

„Það hafa tíu börn og tíu fjölskyldur flutt til okkar síðustu mánuði, umfram þau sem þegar voru á biðlista – og það munar um minna,“ sagði Anna Alexandersdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks.

Hún sagði að ýmiss konar húsnæði hefði verið skoðað en nú væri Vonarland helst inni í myndinni. Hún kvaðst treysta eftirlitsaðilum og starfsmönnum leikskólans til að meta hvort húsnæðið væri viðunandi.

Undir þá afstöðu tóku frambjóðendur Héraðslista og Framsóknarflokks þótt Gunnhildur Ingvarsdóttir frá síðarnefnda listanum varpaði ábyrgðinni á meirihlutann. „Ég tek undir að staðan er ekki góð. Ég tel að það hefði þurft að vera byrjað, eða búið, á þessu kjörtímabili að stækka Hádegishöfða. Sú ákvörðun liggur nú fyrir en hefur verið dregin og lengi og því erum við komin í plássleysi. Það á svo sem að leysa með deild á Vonarlandi – þetta er ekki skipulagt af okkur á B-listanum.“

Er Vonarland boðlegt fyrir leikskóla?

Gunnar Sigbjörnsson, Miðflokki, lýsti hins vegar efasemdum um stækkun Hádegishöfða. „Það er engum greiði gerður með að byggja við Hádegishöfða þannig hann verði í algjörri klemmu,“ sagði Gunnar sem hvatti til þess að byggður yrði leikskóli við Fellaskóla með fjórum deildum.

Hann hafnaði orðum Önnu um bráðavandann og sakaði bæjarstjórnina um að hafa sofið á verðinum. „Það gengur ekki að segja að það hafi komið svo margir. Það er fólk sem búið hefur hér lengi sem fékk ekki svör um sín börn fyrr en fyrir skömmu.“

Hann efaðist einnig um deildina á Vonarlandi og benti á þá lausn að leigja annað húsnæði undir skrifstofu Hitaveitu Egilsstaða og Fella en nýta núverandi stað undir leikskóladeild.

Nafni hans, Jónsson hjá Sjálfstæðisflokknum, var ekki sammála þessu. „Sveitarfélagið býr við það lúxusvandamál að til okkar flytur ungt fólk með börn. Það er ekki einfalt að stökkva svona til. Það væri nær að þakka okkur fyrir hvað við bregðumst fljótt við að leysa þennan vanda.“

Ekki gleyma dagforeldrum

Steinar Ingi Þorsteinsson, oddviti Héraðslistans, benti á að þótt nauðsynlegt væri að byggja nýjan leikskóla yrði líka að huga að öðrum kostum svo sem dagforeldrum. „Þeir nýtast oft betur yngri börnum sem kunna vel við sig í meira næði.“

Anna tók undir það og sagði nauðsynlegt að niðurgreiða þjónustu dagforeldra, eða önnur úrræði, til að búa til val fyrir foreldra. Gunnar Sigbjörnsson benti á að dagforeldrar þyrftu tryggingu þannig þeir sætu ekki eftir ef foreldrar kæmu börnum sínum að á leikskólum með stuttum fyrirvara.

Stytting vinnuvikunnar?

Eftir fyrirspurn úr sal sköpuðust miklar umræður um aðbúnað leikskólabarna, annars vegar að rými væru of lítið á hvert barn og að íslensk börn hefðu bæði lengsta viðveru hvern dag og flesta leikskóladaga. Álagið sem fylgdi því að vera langan dag í þröngu rými gæti síðar valdið geðröskunum.

„Þetta er hluti af stærra samfélagslegu vandamáli,“ sagði Steinar Ingi. Fleiri tóku undir það.

„Þetta virðist þörfin til að foreldrarnir geti rekið heimilin,“ sagði Gunnhildur og bætti við að grunur væri um að sumir foreldrar hefðu börn sín lengur á leikskólanum en þyrfti.

„Mér er skapi næst að segja að það sé þjóðarböl hvað við þurfum að setja börnin lengi í geymslu. Það er ekki leið að það leiði síðar til streitu og þetta þurfum við að skoða,“ sagði Gunnar Jónsson. Anna sagði að samtal yrði að eiga sér stað við samfélagið, ekki væri endalaust hægt að fjölga sálfræðingum þegar vandinn væri orðinn til staðar.

Gunnar Jónsson furðaði sig einnig á umræðu um plássleysi í leikskólunum. „Það er eflaust hægt að biðja um meira rými en það er ekki langt síðan leikskólinn var byggður uppi í Tjarnarlöndum og ætti ekki að vera orðinn úreltur strax.“

Sveitarfélög sameinuð á undan öðrum skólum

Minni umræða átti sér stað um önnur skólastig þótt bæði væri spurt út í tónlistar- og grunnskóla. Frambjóðendur voru almennt á þeirri línu að ekki væri ástæða til sameiningar skólanna. Steinar Ingi staðfesti að fulltrúi listans hefði lagt til sameiningu tónskólanna í fræðslunefnd en sú hugmynd yrði vart tekin upp aftur fyrr en að lokinni sameiningu sveitarfélaga og þá í víðara samhengi.

Anna sagði þörf á að efla samstarf á báðum skólasviðunum. „Við vildum sameina en við viljum að samtalið sé tekið um meira samstarf til að efla skólana. Ég sé fyrri mér Tónlistarskóla Austurlands frekar en einn á Héraði. Þetta snýst ekki bara um fjármuni heldur líka þekkingu og mannauð. Við verðum að fara að losa okkur við múrana.“

Gunnhildur sagði Framsóknarflokkinn ekki styðja sameiningar að svo stöddu, breytingar gætu hins vegar orðið við sameiningar sveitarfélaga. Gunnar Sigbjörnsson sagði Miðflokkinn ekki vilja sameina skóla, hver og einn hefði sína sérstöðu.

Horfa má á fundinn í heild sinni á vef Fljótsdalshéraðs.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.