Orkumálinn 2024

Samgönguráðherra heitir að beita sér fyrir aðgerðum til að gera innanlandsflug hagstæðara

Ráðherra samgöngumála hét því á Alþingi í síðustu viku að beita sér fyrir aðgerðum sem gera innanlandsflug að hagstæðari valkosti en nú er. Niðurgreiðsla til íbúa á svæðum með takmarkaðar samgöngur, líkt og þekkist í Skotlandi, er meðal þess sem til skoðunar er.

Þetta kemur fram í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgönguráðherra, við fyrirspurn Bjarna Jónssonar, þingmanns Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs úr Norðvesturkjördæmi um stefnu stjórnvalda um innanlandsflug.

Í svarinu vísar ráðherrann til þess að innanlandsflug sé í tillögu að samgönguáætlun 2015-2026 skilgreint sem hluti af samofnu grunnneti almenningssamgangna. Þar sé stefnt að því að sem flestir landsmenn geti sótt sér nauðsynlega opinbera þjónustu á höfuðborgarsvæðinu á innan við 3,5 klukkutímum með að nýta sér samþættar almenningssamgöngur.

Bjarni spurði ráðherrann sérstaklega út í hvort hann hygðist beita sér fyrir innleiðingu skosku leiðarinnar, sem austfirskir talsmenn ódýrara innanlandsflugs hafa mikið talað fyrir.

Sigurður Ingi minnir á að í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar sé kveðið á að unnið skuli að því að gera innanlandsflugið að hagkvæmari valkosti fyrir íbúa landsbyggðarinnar og að byggja upp almenningssamgöngur um allt land. Slík vinna sé í gangi og meðal annars horft til dæma frá Skotlandi og Spáni sem fjallað hefur verið um á síðum Austurgluggans/Austurfréttar. Ráðherrann bendir á að skoðað sé hvort þessar leiðir geti nýst til að bæta stöðu kvenna á landsbyggðinni.

Eins er vísað til þess að ríkið niðurgreiði rekstrarkostnað flugvalla til að minnka rekstarkostnað flugfélaga til að hægt sé að halda farmiðaverði niðri. Þar sem framlag ríkisins sé ekki verðtryggt hafi þróunin orðið sú að niðurgreiðslan hafi farið í rekstur flugvalla sem hafi komið niður á viðhaldi og uppbyggingu.

„Ráðherra hyggst beita sér fyrir aðgerðum til að gera innanlandsflug að hagstæðari valkosti en nú er. Tillögur ráðherra munu byggjast á niðurstöðum þeirra starfshópa sem fjallað hafa um efnið og munu þær jafnframt taka mið af heildrænni stefnu um almenningssamgöngur í lofti, á sjó og landi,“ segir í niðurlagi svarsins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.