Sameiningin einstakt tækifæri

„Ég held að það styrki bæði samfélögin að sameinast á þessum tímapunkti, því aðstæður hér í dag eru mjög góðar miðað við oft áður,“ segir Elís Pétur Elísson athafnamaður á Breiðdalsvík. Um helgina verður kosið um sameiningu Breiðdalshrepps og Fjarðabyggðar. 

Algjör viðsnúningur á rekstri Breiðdalshrepps og almennt gott ástand í atvinnumálum hreppsins geri það að verkum að í raun leggi hann mun meira með sér miðað við það regluverk sem unnið er eftir heldur en hefði verið fyrir nokkrum árum.

Fjárhagshliðin sem þar um ræðir sé þó ekki eini ávinningurinn fyrir Fjarðabyggð heldur einfaldist stjórnsýslan til muna þar sem mörg verkefni á sviði félags- og barnaverndarmála þar sem sveitafélögin hafi verið farin að vinna saman nú þegar.

„Við stöndum frammi fyrir því núna að hafa verulegan meðbyr inní þetta ferli en enginn veit hvernig það dæmi myndi snúa eftir nokkur ár þegar að því kemur að ríkisvaldið fer að sameina sveitarfélög með valdi.

Það gefur auga leið að ef fólkið tekur þessa ákvörðun sjálft þá er ferlið og stemningin í kringum sameininguna miklu betra en ef okkur væri þröngvað til sameiningar. Ég hef enga trú á að hér leiði þetta til þess að samfélagið verði að einhverri hnignandi jaðarbyggð sem tærist upp vegna fjarlægðar frá miðpunkti sameinaðs sveitarfélags,“ bætir Elís Pétur við, en það eru þær áhyggjur sem hann segist helst hafa heyrt af, sem mótrök við sameiningunni.

Tryggja verður opinberu störfin til frambúðar

„Ég styð þetta eindregið af því að ég hef mikla trú á að það efli byggðina að vera hluti af stærra samhengi. Við þurfum eins og aðrir að takast á við stóra málaflokka sem ríkið hefur velt yfir á sveitarfélögin og verðum betur í stakk búin til þess, en á svona stöðum er það fólkið sem byggir staðina sem er lykillinn að því að það haldi áfram að ganga vel.

Aðkoma Byggðarstofnunar á sínum tíma hefur verið mikilvægur þáttur í að koma okkur á réttan kjöl, en það er atorkan í fólkinu sem leiðir það af sér hvernig svona staðir dafna í framhaldinu.

Hér er sterkur landbúnaður og mikilvægt að við getum haldið áfram sókn í uppbyggingu á útgerð og sjávarútvegstengdri starfsemi, sem hvílir að einhverju leiti á því að áfram verði hér sértækum byggðarkvóta úthlutað og það eru engin rök fyrir því að dregið sé úr slíkri aðgerð til uppbyggingar svæðisins, að annars staðar í byggðarlaginu standi fyrirtæki í sjávarútvegi vel.

Það sem aftur á móti þarf að tryggja til framtíðar er að opinberu störfin haldist hér til framtíðar, eða að jafn eðlilegt sé að setja þau niður hér eins og þar sem þau eru flest fyrir. Það þrífst ekkert samfélag án þess að öflugt leik- og grunnskólastarf sé fyrir hendi, því það er forsenda þess að barnafólk og fjölskyldur kjósi að búa hér eins og annars staðar.

Svo eru hér fyrirtæki sem hafa margt til að bera til að styrkja Fjarðabyggð í heild sinni sem fjölbreytt atvinnusvæði. Ferðaþjónusta, matvælaframleiðsla, brugghús og annað á þeim nótum eru góð dæmi um það.“

Styrkir suðursvæðið

Að auki telur Elís Pétur að þéttbýlin syðst í sameinuðu sveitarfélagi ættu að geta haft styrk af hvoru öðru með nánari samvinnu en verið hefur, þannig að bæði Stöðvarfjörður og Breiðdalsvík ættu að geta orðið sterkari bæjarkjarnar saman, heldur en að vera lauslega tengdar jaðarbyggðir sem búi ekki að sama styrk og flestir bæjarkjarnar Fjarðabyggðar, þar sem sterk fyrirtæki eru hluti af sjálfsmynd hvers þéttbýlis.

„Hér verða smærri fyrirtæki, einyrkjar og þeir sem vinna í opinbera geiranum að vinna einarðlega saman að því að þetta mikla landsvæði sem bætist við syðst í sveitarfélaginu, verði sameiningin samþykkt, virki sem ein heild í stóra samhenginu innan þess sem verður eitt af víðfeðmustu sveitarfélögum landsins.

Það getur orðið öllum til heilla og verður líka alltaf fyrsta skrefið í því ferli sem margir kalla eftir, að á Austurlandi verði færri og sterkari sveitarfélög í framtíðinni,“ segir Elís.

Úr umfjöllun Austurlands um kosningar um sameiningu Fjarðabyggðar og Breiðdalshrepps, birt með leyfi ritstjóra Austurlands, Arnaldar Mána Finnssonar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.