Rúnar Gunnarsson leiðir Miðflokkinn í Fjarðabyggð

Norðfirðingurinn Rúnar Gunnarsson mun leiða framboð Miðflokksins í Fjarðabyggð í sveitarstjórnarkosningunum í vor.

Þetta var tilkynnt að loknum stofnfundi Miðflokksfélags Fjarðabyggðar á Reyðarfirði á laugardag. Á fundinum var samþykkt að flokkurinn byði fram í sveitarfélaginu og Rúnar myndi leiða listann.

Rúnar er fæddur og uppalinn á Norðfirði og býr þar ásamt eiginkonu sinni Aldísi Stefánsdóttur, en þau eiga 4 börn og 6 barnabörn.

Rúnar hefur áratuga reynslu af rekstri, en hann keypti fyrirtæki í flutningaþjónustu árið 1979 og byggði það upp þar til hann seldi Eimskip það árið 1999. Hann hefur rekið flutningaþjónustu Eimskips á Austurlandi síðan.

Í tilkynningu segir að Rúnar leggi mikla áherslu á að vinna að betri sameiningu fólksins í Fjarðabyggð til að styrkja samfélagið í heild, og að rýna í fjármál og starfsmannamál sveitarfélagsins með það í huga að auka nýtni fjármagnsins gagnvart núverandi íbúum.

Önnur nöfn á framboðslistann hafa ekki verið staðfest en í frétt félagsins af fundinum segir að Guðmundur Þorgrímsson, fyrrum oddviti Austurbyggðar, verði í baráttusæti.

Stjórn Miðflokksfélags Fjarðabyggðar ásamt oddvita og þingmönnum flokksins í kjördæminu. Frá vinstri: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Guðmundur Þorgrímsson, Lára Eiríksdóttir, Rúnar Gunnarsson, Anna Kolbrún Árnadóttir og Árni Björn Guðmundsson. Mynd: Miðflokkurinn

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.