Óskiljanlegt ef Íslendingar læra ekki af reynslu annarra í laxeldi

Formaður Veiðifélags Breiðdalsár vill að allt fiskeldi við strendur Íslands verði í lokuðum kvíum. Ekki sé hægt að halda áfram eldi nema komið verði í veg fyrir að eldislax geti blandast við villtan lax. Læra verði af biturri reynslu annarra ríkja.


„Þetta segir okkur að menn eru að vakna til vitundar um þessa hættu sem lífríkinu til lands og sjávar starfar af eldinu. Með þessari skýrslu er stigið stórt skref í þá átt að takmarka laxeldið á Austfjörðum en þó allt of stutt.“

Þetta segir Gunnlaugur Stefánsson, formaður félagsins, um áhættumat af fiskeldi við Ísland sem Hafrannsóknastofnun sendi nýverið frá sér. Í matinu er Breiðdalsá talin viðkvæmust þeirra áa sem skoðaðar eru og því lagst gegn öllu fiskeldi í Stöðvarfirði og að það verði aukið í Berufirði.

Matið er unnið með erlendum sérfræðingum og meðal annars byggt á norskum rannsóknum. Þær sýna tölfræðilega marktæka blöndun eldislax og villts lax í helmingi veiðiáa í Noregi. Tekið er fram að áhættan þar sé meiri vegna því hversu nálægt veiðiám eldi hafi verið sett.

Vill eldið í lokuð kerfi

Gunnlaugur hefur lengi verið meðal þeirra sem helst hafa varað við skaðlegum áhrifum laxeldis á villtan lax. „Það þarf að fara úr sjókvíum í lokuð kerfi, annað hvort í sjó eða landi. Fyrr verður ekki sátt.

Ég spyr af hverju Íslendingar ætla að gera minni kröfur til laxeldis en Norðmenn, bugaðir af reynslu í sjókvíum. Þar er búið að stöðva allar nýfjárfestingar í opnu sjókvíaeldi, setja fram mjög nákvæmar áætlanir um hvernig allt eldi í framtíðinni verði lúsfrítt og alls ekki verið genablöndun milli eldisfisk og villtra stofna.“

Á Íslandi stendur yfir þriðja bylgja fiskeldis, sem hófst 2009. Eldið hefur síðan vaxið veldisvexti. Gert er ráð fyrir að tíu þúsund tonn verði framleidd í ár og áfram verði bætt í á næstu árum.

Það er óskiljanlegt að Íslendingar kynni sér ekki þessa reynslu og nýti einstakt tækifæri þegar verið er að byrja eldi aftur til að gera það þannig að standist allar þær kröfur sem nágrannaþjóðir okkar eru að setja í ljósi reynslunnar.“

Gunnlaugur segist ekki á móti fiskeldi almennt en það verði að gera rétt. „Ef staðið er faglega og sómasamlega að uppbyggingu laxeldis þannig að það standist kröfur er það besta mál. Að gera það með þeim hætti sem nú er gert er gjörsamlega vonlaust dæmi í ljósi sögunnar.“

Rógur að tala um óvilltan stofn í Breiðdalsá

Talsmenn fiskeldis á Austfjörðum og nágrannasveitarfélög hafa lýst því yfir að forsendur áhættumatsins verði kannaðar frekar áður en ákvarðanir verði teknar út frá því. Miklir hagsmunir eru í húfi af báðum hliðum, mikil áform eru um uppbyggingu fiskeldis á sama tíma og tekjur af laxveiði eru metnar á milljarði króna árlega.

Talsmenn eldisins hafa einnig sett spurningamerki við hversu náttúrulegur fiskurinn í Breiðdalsánni sé. Í grein sem Kristján Sveinn Ingimarsson, fiskifræðingur og eldisstarfsmaður á Djúpavogi, skrifaði í Morgunblaðið í byrjun mánaðarins bendir hann á að laxi hafi verið sleppt í Breiðdalsá undanfarin 50 ár.

„Áin er hafbeitará en eldisfiski hefur verið sleppt í ána frá árinu 1967 og hefur verið notast við nokkra mismunandi stofna við þá starfsemi. Í ánni er því ekki villtur stofn sem getur orðið fyrir áhrifum enda virðist lax eiga erfitt með að klekja út hrognum sínum þar hvort sem um er að kenna hve köld áin er eða öðrum óhagstæðum skilyrðum. Þ

Það er því falskur tónn í því að vilja koma í veg fyrir fiskeldi með það í huga að verja einhvern ímyndaðan sér-stakan laxastofn í Breiðdalsá sem ekki er lengur til en sú spurning vaknar hvað hefur orðið um náttúrulegan bleikjustofn sem eitt sinn var í ánni eftir að sleppingar á laxi í ána fóru að aukast?“ skrifar Kristján Sveinn.

Gunnlaugur segir þessar fullyrðingar rangar. „Sú ræktun sem fer fram er í samræmi við lögum veiðifélög. Þeim er gert að stunda fiskrækt eins og aðstæður leyfa og það er gert í Breiðdalsá á grundvelli þess villta stofns sem í ánni er.

Í hana hafa aldrei farið seiði nema af villtum íslenskum laxastofni, að grunni til úr ánni sjálfri. Þetta er rangt og að gefa í skyn að Breiðdalsá sé óvilltur stofn er rógur og vitnar fyrst og fremst um rökþrot þeirra sem halda svona farm.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.