Opinn fundur um framtíð Húsó: Viljum heyra hugmyndir samfélagsins

Í kvöld verður haldinn opinn umræðufundur um framtíðarmöguleika Hússtjórnarskólans á Hallormsstað, námsleiðir og ímynd hans í samfélaginu. Hvatinn að baki fundinum er að ekki sóttu nógu margir nemendur um nám þar á vorönn til að halda uppi námi.


„Við þurfum að horfast í augu við sjálf okkur og velta fyrir okkur hver ástæðan er fyrir að nemendur sækja ekki í námið,“ segir Bryndís Ford, skólastjóri.

„Það eru engir nemendur hjá okkur nú á vorönninni og þar með samningur við menntamálaráðuneytið um rekstur framhaldsskóla brostinn og það þarf að ræða um nýjan.

Við viljum nýta tækifærið til að ræða um framtíð skólans og bjóða alla velkomna á opinn umræðufund. Við viljum leita til fólks sem hefur áhuga á náminu en við erum líka að spá í ímyndinni, hvað samfélagið vill sjá fyrir sér.“

Stytting stúdentsprófs hjálpar ekki

Bryndís segir ýmsar skýringar geta verið fyrir að ekki fengust nemendur á vorönninni. Vorönnin hafi lengi verið erfið en oft hafi hjálpað til að fá nýstúdenta sem lokið hafa framhaldsskóla á 3,5 ári. Þeir séu fáir þegar þegar nám til stúdentsprófs hefur verið stytt í þrjú ár. Eins fari heimurinn sífellt minnkandi þannig að margir fari í heimsreisu að loknum framhaldsskólanum.

Eins þurfi að spá í hvort hússtjórnarhugtakið fæli ungmenni frá. Bryndís bendir hins vegar á að ágæt aðsókn hafi verið síðustu ár í kjarnafög skólans, matreiðslu og handverk. Í fyrra hafi verið tekið upp spannakerfi og nemendur jafnvel getað komið eina spönn og lagt áherslu á bæði fögin.

Hússtjórnarskólinn er í hópi elstu framhaldsskóla landsins en hann var settur í fyrsta sinn 1. nóvember árið 1930. Á þeim tíma hefur skólinn lagað sig að breyttu þjóðfélagi en haldið í grunngildi sín. „Við tökum enn slátur á hverju hausti og kennum að steikja kleinur,“ bendir Bryndís á.

Eins þykir byggingin merkileg. Baðstofan, þar sem kenndur er vefnaður, sé nánast upphafleg og er meðal þeirra rýma sem friðuð voru síðasta haust.

Hvernig má nýta staðinn og skólann

Námið á Hallormsstað hafi haft orð á sér fyrir að vera góður grunnur fyrir frekara nám í matreiðslu. Eftirspurn sé eftir kokkum með fjölgun ferðamanna og auknu orðspori íslenskrar matargerðar.

Um tíma var skólinn með ferðamálabraut á framhaldsskólastigi í samvinnu við Menntaskólann á Egilsstöðum. Að endurvekja hana er eitt af því sem skoðað hefur verið til að styrkja skólann.

„Við sóttum um styrk sem við fengum ekki. Kannanir meðal forsvarsmanna fyrirtækja í ferðaþjónustu sýna að þeir þurfa á meiru af menntuðu fólki að halda.“

En fleiri lausnir koma til greina. „Við viljum bjóða samfélaginu að taka þátt í stefnumótun með okkur. Við viljum ræða hvernig hægt er að nýta staðinn og skólann og það sem hann hefur upp á að bjóða.“

Fundurinn hefst klukkan 19:00 í skólanum. Fyrst verða framsögur en síðan skipt upp í umræðuhópa. Gert er ráð fyrir að hann taki tvo tíma.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.