Ófriðarseggir vöktu hótelgesti

Óánægðir hótelgestir á Valaskjálf fóru fram á skaðabætur eftir að skemmtanaglaðir Austfirðingar skemmdu nætursvefn þeirra um páskahelgina. Hótelhaldarinn óttast um orðspor hótelsins komi fleiri slík atvik upp.


„Svona atvik geta skapað okkur illt umtal sem veldur gríðarlegu tjóni því það getur haft það í för með sér að fólk sniðgangi hótelið,“ segir eigandinn Þráinn Lárusson.

Í Valaskjálf er annars vegar rekið hótel, hins vegar skemmtistaðurinn Feiti fíllinn og menningarhús. Þráinn segir það áskorun að reyna að samþætta slíkan rekstur við hótelinu þar sem hávaði frá slíkum stöðum geti truflað hótelgesti en til þessa hafi það gengið stórslysalaust.

En alvarlegt atvik kom upp aðfaranótt páskadags. Hótelgestir vöknuðu við háreystri hóps sem var að koma af skemmtistaðnum eftir lokun klukkan þrjú. Gestir eins herbergisins bönkuðu í glugga til að reyna að biðja um næturfrið.

Hópurinn brást ókvæða við, grýtti snjóboltum í hótelið, girti niður um sig og sýndi gestunum á sér afturendann. Þeim verður endurgreidd dvölin að viðbættum skaðabótum.

Þráinn segir að verið sé að undirbúa kæru til lögreglunnar vegna málsins. Borin hafi verið kennsl á hluta hóps en til greina komi skoða aðrar leiðir gefi þeir sem sýndu hótelgestunum dónaskap sig fram við forsvarsfólk Valaskjálfar og Feita fílsins og axli ábyrgð á gjörðum sínum.

„Við látum ekki svona koma oft fyrir, þá einfaldlega lýkur tilrauninni með skemmtistaðinn. Svona framkoma við gesti okkar gengur ekki. Við getum ekki látið svona spyrjast til okkar sem samfélags,“ segir Þráinn.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar