Orkumálinn 2024

Örvhentur veðurfræðingur óskast á RÚV

„Gengur á með jakkafötum og hvítri skyrtu austanlands næstu daga,“ skrifaði Eiður Ragnarsson á Djúpavogi við mynd sem hann setti á Facebooksíðu sína þar sem veðurfræðingur RÚV stendur fyrir Austurlandinu meðan hann fór yfir veðurhorfur næstu daga.



„Þetta er kannski óþarfa tuð og vel er hægt að skoða veðrið annarsstaðar, en svona fyrst þessi dagskrárliður er í sjónvarpinu þá finnst mér það lágmarks tillitssemi að hægt sé að gjóa augunum á helstu atriði eins og hitatölur og vind í sínum fjórðungi,“ segir Eiður og bætir því við að þessi tilhneiging veðurfréttamanna á RÚV hafi verið slæm síðustu misseri en hafi líklega náð hámarki í gærkvöldi.

„Maðurinn stóð alveg fyrir landshlutanum í gær, gamla austfjarðakjördæmið sást aldrei allan veðurfréttatímann.“


Fjölmenn mótmælasíða á Facebook

Eiður er svo sannarlega ekki einn um þessa skoðun, en meðal annars eru 72 meðlimir í hóp á Facebook sem nefnist „Hættið að standa fyrir Austurlandi kæru veðurfræðingar.“

„Búið er að deila þessari stöðufærslu minni tæplega hundrað sinnum síðan í gærkvöldi, en ég hef aldrei sett inn færslu sem hefur verið deilt eins oft, þrátt fyrir að hafa oft verið mun gáfulegri en þetta. Fólk er bara almennt pirrað yfir þessu og í lagi að röfla smá og gera grín að sér í leiðinni.“


Þarf að taka prikið upp aftur?

Aðspurður hvort hann sjálfur hafi einhverja lausn á vandanum segir hann; „Jah, þegar stórt er spurt. Ég hef nú aðeins tuðað um þetta á síðunni minni hingað til en ég veit að einhverjir hafa sent inn formlega kvörtun á fréttastofuna. Ég veit ekki hvort hún hefur komist til skila, líklega ekki. Verðum við ekki bara að óska eftir örvhentum veðurfréttamanni á RÚV? Nú eða bara taka upp prikið eins og í gamla daga, þá geta þeir staðið austanmegin en áhorfendur þó séð hvað um er að vera.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.