Óbreytt framlag til HSA: Erfitt að hagræða frekar án þess að skerða þjónustu

Framlög til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni, þar með talið Heilbrigðisstofnunar Austurlands, eru óbreytt í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2018 miðað við það frumvarp sem lagt fram af fyrri ríkisstjórn í haust. Stjórnendur stofnunarinnar telja yfir eitt hundrað milljónir vanta inn í reksturinn.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er HSA úthlutað 3.541 milljón sem er 6,2% aukning milli ára eða 16 milljónir. Á móti er gert ráð fyrir 2,7% verðbólgu og 3% hækkun launa sem þýðir að engin aukning er til rekstrar.

Í minnisblaði frá forstjóra HSA, Guðjóni Haukssyni, til austfirskra sveitastjórna frá í síðasta mánuði segir að sú aukning sé ekki næg. Erfitt sé að sjá að hagræða frekar í rekstrinum án þess að skerða þjónustu verulega.

Bent er á að verulega hafi verið hagrætt hjá HSA og stofnunin sé þriðja árið í röð rekin innan fjárheimilda. Bent er á nokkur atriði sem sérstaklega þurfi að horfa til.

Í fyrsta lagi er nefnt að HSA græði lægri taxta fyrir verktöku sérfræðilækna en aðrar heilbrigðisstofnanir. Þetta hafi leitt til þess að erfiðlega hafi gengið að fá sérfræðinga austur. Til að bregðast við þessu hafi verið mótuð stefna um mikilvægi annarra heilbrigðisstétta. Eins hefur taxtinn verið hækkaður en áætlað er að 30 milljónir vanti inn í þennan lið rekstrarins.

Þá vantar aðrar þrjátíu milljónir til að mæta aukinni þörf á heimahjúkrun.

Í fjárlögunum er gert ráð fyrir draga úr rekstrarkostnaði hjúkrunarsviðs um 34 milljónir. Í minnisblaði forstjórans segir hann að ekki sé raunhæft að ganga lengra í hagræðingu sviðsins án þess að stofna þjónustu við aldraða í hættu.

Veruleg aukning hefur orðið í sjúkraflutningum á svæðinu. Framlag til þeirra var 86,5 milljónir á næsta ári en raunkostnaðurinn 138,7 milljónir. Bent er á að mismunurinn, 52 milljónir, séu teknar af öðrum rekstri HSA.

Stofnuninni eru skammtaðar 14 milljónir til tækjakaupendur en talið er að þörfin sé 32,5 milljónir.

Þá hefur stofnunin óskað eftir því að 23 milljónir af lífeyrissjóðssjóð sveitarfélaga verði gerðar upp.

Í fjárlagafrumvarpinu er á nokkrum stöðum talað um að styðja við þróunarverkefni í fjarheilbrigðisþjónustu, sem HSA hefur meðal annars tekið upp á sína arma. Erfitt er að greina nákvæmlega fjárheimildir til þeirrar vinnu.

Í skýringum með frumvarpinu segir að gert sé ráð fyrir útgjaldaaukningu hjá þremur heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni, þar á meðal HSA, upp á 85,2 milljónir gegn samsvarandi hækkun í sértekjum.

Þá er veitt heimild til að leigja viðbótaraðstöðu fyrir stofnunina á Egilsstöðum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.