Orkumálinn 2024

Nýr formaður SUS kjörinn á Eskifirði: Verðum að græða þau sár sem orðið hafa í formannslagnum

Ingvar Smári Birgisson var kjörinn nýr formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna (SUS) á þingi samtakanna sem haldið var á Eskifirði um helgina. Þingið var eitt hið fjölmennasta í sögu hreyfingarinnar enda smalað rækilega til kosningar um formann.


„Mér líður ótrúlega. Ég er þakklátur fyrir stuðninginn, hann er miklu meiri en ég hélt að hann yrði, að minnsta kosti til að byrja með.

Ég vona að ungir Sjálfstæðismenn geti núna sameinast um þau málefni sem framundan eru, einkum sveitarstjórnarkosningar og grætt þau sár sem hafa átt sér stað í þessum formannsslag. Ég held að það sé vilji fyrir því hjá öllum. Þegar við erum við sameinuð erum við sterkust.“

Þetta sagði Ingvar Smári Birgisson í samtali við Austurfrétt, nokkrum mínútum eftir að úrslit kosninganna lágu fyrir í gær. Hann fékk 222 atkvæði en mótframbjóðandi hans, Ísak Einar Rúnarsson, 210. Sex seðlar voru auðir eða ógildir en 438 atkvæði greidd í kosningunum.

Það mun vera ein fjölmennasta kosning í ungliðahreyfingu í sögu íslenskra stjórnmála. Rúmlega 200 kusu í frægri kosningu SUS á Ísafirði 2009 þegar fjöldi þátttakenda mætti óvænt til þings með flugi að morgni kjördags. Kosningin nær hins vegar ekki því þegar 441 greiddi atkvæði árið 2003 hjá Ungum jafnaðarmönnum þar sem Andrés Jónsson var kjörinn formaður.

Leiguflugvélar og partírútur

Ljóst hefur verið í nokkrar vikur að þingið yrði fjölmennt en talsvert hefur verið fjallað um baráttu formannsframbjóðendanna tveggja í fjölmiðlum. Rútur á vegum framboðs Ísaks fóru austur frá Reykjavík með viðkomu á Sauðárkróki þar sem slegið var upp partíi.

Eftir því sem Austurfrétt kemst næst þótti sumum ferðalöngunum þar vera komið nóg og fóru aldrei alla leið á Eskifjörð heldur snéru aftur heim þegar þeim bauðst það.

Rúturnar voru ekki nóg. Á sunnudagsmorgun komu tvær leiguvélar, annars vegar frá Erni og hins vegar minni gerðin af vélum Flugfélags Íslands. Þær biðu síðan meðan kosið var. Þá voru sæti áætlunarvéla um helgina þéttsetin þingfulltrúum. Ljóst er að kostnaður hvors framboðs vegna ferðakostnaðar hleypur á hundruðum þúsunda, ef ekki milljónum.

Fulltrúar framboðanna voru komnir á stjá snemma á sunnudagsmorgun til að tryggja að þeir sem gefið hefðu kost á sér til setu á þinginu kæmu örugglega austur og sætin í vélunum væru fullsetin. Það mun þó ekki hafa tekist í öllum tilfellum.

Þremur tímum á eftir áætlun

Vélarnar þurftu líka að bíða lengur en fyrirhugað var. Samkvæmt dagskrá átti kosning að hefjast klukkan 13:00, öll úrslit að vera ljós fyrir klukkan tvö og þinginu slitið klukkan fjögur.

Þegar Austurfrétt bar að garði klukkan eitt var verið að skrá fulltrúa inn á þingið. Því lauk ekki fyrr en rétt fyrir klukkan tvö og þá var loks hægt að byrja að kjósa. Kosningin sjálf stóð til um klukkan hálf fimm. Þegar henni loks lauk gekk talning hratt fyrir sig og úrslit lágu fyrir klukkan rúmlega fimm.

Þá voru nær allir þingfulltrúar farnir heim enda um langan veg að fara og aðeins hörðustu stuðningsmenn framboðanna eftir.

Vafamál út af lögheimilum

Meðal þess sem tafði fyrir kosningunum voru vafamál út af kjörskrá en ekki gátu allir sem lagt höfðu leið sína austur kosið. Ein skólastofan í Grunnskóla Eskifjarðar, þar sem þingið var haldið, var lögð undir úrlausn vafamálanna.

Þau komu ekki á óvart en mikið var um lögheimilisflutninga fyrir þingið. Þingið var fulltrúaþing þar sem einstök aðildarfélög SUS velja fulltrúa á þingið. Yfirlýstir stuðningsmenn Ísaks skipuðu nær öll þau rúmlega 200 sæti sem Reykjavíkurfélagið Heimdallur átti. Miðað við úrslitin virðist hann hafa fengið fá atkvæði annars staðar frá.

Vísir.is greindi frá því að stuðningsmenn hans hefðu flust búferlum að heimili kosningastjóra hans að Álftamýri 73 í Reykjavík. Á móti hafa væntanlega einhverjir stuðningsmenn Ingvars flutt sig úr borginni í önnur félög, en óánægju gætti með að fyrrum trúnaðarmenn, sem lýst höfðu yfir stuðningi við hann, komust ekki á fulltrúalista Heimdallar.

Ótti um illt umtal, sem og mun meiri fjöldi en vanalega er á þingum SUS, urðu til þess að illa gekk að fá fyrirtæki í Fjarðabyggð til að taka á móti þinggestum í heimsóknir eins og hefð er fyrir.

Aðskilin partí á laugardagskvöldi

Átökin voru þannig vel sýnileg þeim fulltrúum sem voru á Eskifirði um helgina. Stuðningsmenn Ingvars mættu í hátíðarkvöldverð sem haldinn var á Eskifirði en þeir sem fylgdu Ísak, sem og frambjóðandinn sjálfur, stóðu fyrir eigin veislu í Neskaupstað.

Stuðningsmenn Ísaks voru lítt sjáanlegir þegar úrslitin voru loks kynnt í sal Eskifjarðarskóla. Stuðningsmenn Ingvars voru þar hins vegar og fögnuðu ákaft. Mótframbjóðandinn birtist skömmu eftir að öll úrslit voru kunngjörð og heilsaði sigurvegaranum.

„Ég held að það fari eftir einstaklingum hve djúp sárin eru. Ég held að allir vilji horfa framhjá þeim átökum sem hafa átt sér stað, læra af þeim og vinna saman,“ sagði Ingvar.

Alltaf verið fylkingar í SUS

Fyrir utanaðkomandi virtist lítill munur á frambjóðendunum tveimur málefnalega. Ingvar hefur verið í stjórn SUS undanfarin ár og er fyrrverandi formaður Heimdallar. Þá má bæta því við að tengdaforeldrar hans búa á Reyðarfirði. Ísak var formaður stúdentaráðs Háskóla Íslands og leiðtogi Vöku. Ingvari er lýst sem frjálshyggjumanni en Ísak heldur íhaldssamari, ef miða má við klassískar línur sem stundum má sjá í Sjálfstæðisflokknum.

Á bakvið Ísak stóð hópur fólks sem getið hefur sér gott orð fyrir árangur í kosningum, meðal annars unnið með Jóni Atla Benediktssyni háskólarektor, Guðlaugi Þór Þórðarsyni ráðherra og Guðna Th. Jóhannessyni, forseta. Þessi hópur er ekki vanur að tapa.

Stuðningsmenn Ísaks hafa lýst honum sem manninum sem boðið hafi sig fram gegn ráðandi öflum í SUS. Ingvar virtist njóta stuðnings fyrrverandi formanna SUS.

„Það hafa alltaf verið fylkingar í SUS. Það er að mörgu leyti eðlilegt í stóru starfi þar sem fólk hefur hagsmuna að gæta og vill komast til metorða eða hafa áhrif eins og í þessu tilviki,“ sagði Ingvar sem ítrekaði ósk sína um að hratt gengi að lægja öldurnar. „Við höfum ekki efni á að sameinast ekki fyrir sveitarstjórnarkosningarnar.“

Drykkja á skólalóðinni

Málefnastarf þingsins gekk nokkuð hratt fyrir sig og var með öllu lokið fyrir hádegi í gær, nokkuð á undan áætlun. Ingvar segir það hafa verið ánægjulegt hversu vel það hafi gengið og þingið hafi almennt verið skemmtilegt.

Spurningin er hversu glaðir íbúar á Norðfirði og Eskifirði eru hins vegar með skemmtanahaldið en útgangurinn eftir það mun hafa verið fremur dapur. Á Facebook-síðu Íbúasamtaka Eskifjarðar hafa átt sér stað nokkrar umræður um umgengnina, en bæði var reykt á skólalóðinni og drukkið innan veggja skólans.

Þegar Austurfrétt kom að húsinu í gær var gleðskapur í brunastiganum og áfengis neytt innan dyra skólans nær allt þar til kosningunum var lokið. Skipuleggjendur þingsins reyndu að halda áfenginu utan dyra og partýið við neyðarútganginn var fljótlega leyst upp. Þeir börðust hins vegar af veikum mætti við mikinn fjölda fólks enda dramað í kringum kosningarnar þeim eflaust ofar í huga.

Um þverbak keyrði um hádegið þegar ungir menn birtust með mikil kör sem þeir komu fyrir við veggi skólans og hugðust fylla þau af bjór. Þeim var snarlega skipað í burtu.

Eskfirðingum þótti heldur ekki fallega gengið um kringum félagsheimilið Valhöll, sem var önnur miðstöð þingsins ásamt grunnskólanum, né heldur gististaði á sunnudagsmorgni. Aðrir hafa hins vegar fagnað komu 400 gesta í bæinn sem eflt hafi efnahagslífið og mögulega myndað tengsl sem nýst geti síðar.

Sus Thing 0002 Web
Sus Thing 0008 Web
Sus Thing 0014 Web
Sus Thing 0021 Web
Sus Thing 0022 Web
Sus Thing 0023 Web
Sus Thing 0033 Web
Sus Thing 0038 Web
Sus Thing 0040 Web
Sus Thing 0042 Web
Sus Thing 0045 Web
Sus Thing 0051 Web



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.