Njarðvíkurskriður í útboð síðsumars

Vegagerðin hefur staðfest að til standi að endurbæta veginn um Njarðvíkurskriður á leiðinni til Borgarfjarðar eystra. Fjármagn til verksins kemur úr sérstakri fjárveitingu til vegabóta en ráðist verður í viðhaldsframkvæmdir á vegum á nokkrum stöðum í fjórðungnum.

Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi kom fram að 1640 milljónum af fjögurra milljarða aukaframlagi ríkisstjórnarinnar verði varið til nýframkvæmda, þar af fari 220 milljónir í að leggja bundið slitlag á tvo kafla á Borgarfjarðarvegi.

Sveinn Sveinsson, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar á Austurlandi, segir öruggt að annar þessar kafla verði vegurinn um Njarðvíkurskriður. Hafa þarf hraðar hendur ef vegurinn á að komast í verk á þessu ári.

„Við erum að skoða hvernig við getum unnið þetta og komið í gang með stuttum fyrirvara, menn hespa ekkert af svona framkvæmdum í dag,“ segir Sveinn.

Undirbúningur hefur staðið í 2-3 vikur því ljóst hafi verið að peningur kæmi í skriðurnar en ekki verið staðfest hve há fjárhæðin yrði. Sveinn segir stefnt að því að verkið verði boðið út seint í sumar.

Ekki hefur verið ákveðið hver hinn kaflinn verði. Meðal annars er kannað hvort hann verði boðinn út með skriðunum.

Þá veitir ríkið um 2,4 milljörðum til viðhalds. Sveinn segir að á austursvæði nýtist það í laga bundið slitlag, malarvegi, styrkingar og aðrar endurbætur á vegum. Ekki sé endanlega ljóst hvaða viðhaldsframkvæmdum verði bætt við en það skýrist á næstu dögum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.