„Náttúrustofur eru landsbyggðavænar“

Afmælisári Náttúrustofu Austurlands lýkur formlega á morgun með siglingu um Norðfjarðarflóa, en hefur 20 ára starfsafmæli hennar hefur veriið fagnað með ýmsum hætti undanfarið ár.



Náttúrustofa Austurlands tók formlega til starfa þann 24. júní 1995.

„Við höfum í vetur unnið að sérstakri útgáfu Glettings vegna afmælisins, þar sem efnistökin eru náttúra Austurlands og viðfangsefni Náttúrustofunnar. Bæði fyrrverandi og núverandi starfsmenn skrifa þar greinar, auk velunnara og samstarfsaðila Stofunnar í gegnum tíðina. Blaðið sem er tvöfalt kemur út á næstu dögum.

Einnig hittust núverandi og fyrrverandi starfsmenn og stjórnarmenn ásamt aðilum frá rekstrarsveitarfélögunum og gerðu sér glaðan dag, en það mun vera í fyrsta sinn sem starfsfólk og stjórnarmenn hittast saman með mökum og var það vel til fundið. Á morgun er svo ráðgert að ljúka afmælisárinu formlega með afmælissiglingu um Norðfjarðarflóa,“ segir Kristín Ágústsdóttir, forstöðumaður Náttúrustofu Austurlands.

Fjölbreytt viðfangsefni

Kristín segir að margir haldið að Náttúrustofan sé ríkisstofnun, en svo er ekki.

„Náttúrustofa Austurlands er sjálfstæð stofnun í eigu sveitarfélaganna Fjarðabyggðar og Fljótsdalshéraðs og byggir tilveru sína að mestu á sjálfafla fé. Hún er rekin með styrk frá ríkinu og framlagi rekstrarsveitasveitarfélaganna, en að stærstum hluta eru verkefni hennar þjónustuverkefni fyrir fyrirtæki á Austurlandi.

Viðfangsefnin eru afar fjölbreytt. Við stundum rannsóknir á gróðurfari og mögulegum breytingum á gróðri vegna umsvifa mannsins. Við fylgjumst með gæsum, öndum, mófuglum, flórgoðum og rjúpum á mismunandi árstímum og við rannsökum smádýralíf í sjó og ám. Við fylgjumst með hreindýrum á ólíkum tímum ársins, stundum eru þau jafnvel með GPS senditæki sem veita okkur afar dýrmætar upplýsingar um ferðir og farleiðir hreindýra, vinsælustu svæði dýranna á vetrum, sumrin og öðrum tímum. Hægt er að kynna sér flest verkefnin okkar, bæði stór og smá, á heimasíðu Náttúrustofunnar þar sem skýrslur eru birtar, en þær eru orðnar yfir 160.“

 


Dýrmætt samstarf

Náttúrustofa Austurlands var fyrsta náttúrustofan á landinu sem stofnuð var á grundvelli laga frá árinu 1992. Frá árinu 2013 eru náttúrustofurnar átta og dreifast um allt land. Samvinna milli stofa er mikið og árið 2002 stofnuðu þær með sér formleg Samtök Náttúrustofa.

„Upphaflega var það sveitarfélagið Neskaupstaður sem stofnaði og rak Náttúrustofu Austurlands. Segja má að Náttúrustofa Austurlands í Neskaupstað hafi byggst upp af grunni Náttúrugripasafnsins í Neskaupstað og þeirri rannsóknarhefð sem fylgdi starfssemi þess. Einnig hafði staðsetning Rannsóknarstofnunar fiskiðnaðarins (nú Matís) í Neskaupstað áhrif á staðarvalið.

Árið 2000 var stofnað útibú á Egilsstöðum þegar sérfræðingur hreindýrarannsókna var ráðinn og árið 2008 var gert samkomulag um að Fljótsdalshérað kæmi að rekstrinum með Fjarðabyggð. Þrír starfsmenn Stofunnar eru staðsettir á Egilsstöðum.“

Kristín segir gott samstarf vera við aðrar náttúrustofur, rannsóknastofnanir og setur um landið, svo sem við Breiðdalssetur, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands og nú nýlega var stofnað til samstarfs við Náttúrurannsóknastofnunina NINA í Noregi.

„Þetta er okkur afar dýrmætt, sem og það góða samstarf sem við eigum við almenning í okkar nærsamfélagi. Við sinnum einnig fræðslu, til dæmis er starfræktur náttúruskóli fyrir unga og upprennandi náttúruunnendur á hverju ári, þá fáum við skóla í heimsóknir og förum sjálf í heimsóknir í skóla svo eitthvað sé nefnt“



Hallar á karlkynið í starfsmannahópnum

Kristín segir árangur Náttúrustofunnar byggja á hæfileikaríku starfsmönnum, sem eru átta talsins, þar af háskólagengnir náttúrufræðingar, ýmist með B.S eða M.S gráðu.

„Sérsvið starfsfólks er fjölbreytt, meðal annars fuglafræðingar, gróðurfræðingar, hreindýrafræðingar, vatnalíffræðingur og landupplýsingafræðingur. Heldur hallar á karlkynið í hópi starfsfólks, en þeir eru bara tveir.

Starfsmannaveltan er lítil og hafa sex núverandi starfsmenn starfað lengur en tíu ár, en frá upphafi starfað um 25 manns á Náttúrustofunni, þar af 13 fastráðnir en 12 í tímabundnum störfum sem sumarstarfsmenn eða vegna ákveðinna verkefna.“



Óþrjótandi verkefni
Kristín segir náttúrustofur vera landsbyggðavænar.

„Þær sinna áhugaverðum störfum á fræðasviðum sem höfða til ungs fólks og á undanförnum árum hafa þær ráðið til starfa fjöldann allan af ungu fólki sem annars hefði líklega ekki fengið störf við sitt hæfi á landsbyggðinni.

Rannsóknir stofanna eru afar fjölbreytilegar og bera vitni um mikla grósku. Mikil tækifæri felast í því að færa náttúrustofum aukin verkefni á sviði náttúrfarsrannsókna og umhverfismála. Þannig getur ríkið lagt sitt að mörkum við að auka framboð fjölbreyttra starfa fyrir ungt menntað fólk hér eystra og víðar á landsbyggðinni. Verkefnin sem bíða úrlausnar er mikilvæg og óþrjótandi.“

Ljósmynd: Starfsfólk Náttúrustofu Austurlands í Hjallaskógi, Neskaupstað í apríl 2016.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.