Mun þó ekki yfirgefa pönkhljómsveitina

Séra Davíð Þór Jónsson, sem gegnt hefur starfi héraðsprests á Austurlandi, hefur verið kjörinn sóknarprestur í Laugarneskirkju.



Tveir af þremur umsækendum gegna starfi á Austurlandi, en auk Davíðs sóttu þau séra Stefán Már Gunnlaugsson, sóknarprestur á Vopnafirði og Inga Harðardóttir, guðfræðingur um embættið.


Kveður Austurland með trega

„Vissulega er ég þakklátur fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt, en ég hef fylgst með Laugarnessókn úr fjarlægð um tíma þar sem hún er þekkt fyrir að vera með róttæka boðun og starf fyrir framsækna og róttæka guðfræði – en sú hugmyndafræði er mér að skapi og þann kyndil mun ég bera auðmjókur og glaður,“ sagði Davíð Þór í samtali við Austurfrétt í morgun.

Davíð Þór segir segir þó að í bland við tilhlökkun yfir nýjum tímum muni hann kveðja Austurland með söknuði og trega.

„Ég fer héðan reynslunni ríkari og fullur þakklætis. Við hjónin fluttum ekki austur með það að leiðarljósi að vera aðeins í tvö ár, en svona er lífið stundum, þegar ég sá þetta embætti auglýst tókum við í sameiningu ákvörðum um að ég skyldi setja nafn mitt í pottinn. Ef ég fengi starfið væri það frábært, en ef ekki væri það líka frábært og við myndum þá halda áfram með „Plan-A“ sem var að byggja upp líf okkar hér fyrir austan,“ segir Davíð Þór, en hann og kona hans Þórunn Gréta Sigurðardóttir, eignuðust barn á árinu.

Davíð Þór segist muni leitast við að halda þeim vináttuböndum sem myndast hafa á þessum tveimur árum sem ég hef verið hér.

„Ég mun gera mitt til þess að pönkhljómsveitin sem ég var nýbúinn að stofna ekki lognast úf af fyrir fyrsta gigg, en við höfum nú þegar bókað tvö og þau verða spiluð.“


Strax litið á hann semheimamannfyrir austan

Davíð Þór átti glæsta framgöngu í Útsvarsliði Fjarðabyggðar síðastliðinn vetur.

„Ég tel nú engar líkur á því að ég verði þar innanborðs áfram, enda þótti mér nokkuð bratt að fá þann heiður að taka sæti í liðinu eftir svo stuttan tíma. Við töluðum um það innan liðsins að ég væri fulltrúi nýbúa og Heiða þá fulltrúi brottfluttra, en hún er frá Norðfirði en búsett í Reykjavík. Varla er ég nýbúi þegar ég er að flytja í burtu og sæti brottfluttra er ekki autt.“

Aðspurður segist Davíð Þór ekki búast við því að taka sæti í Útsvarsliði Reykjavíkur. „Nei, ég tel engar líkur á því, enda hafa Reykvíkingar alltaf litið á mig sem Hafnfirðing og Hafnfirðingar á mig sem Reykvíking, en segja má að Austurland sé eini staðurinn sem strax var litið á mig sem heimamann.“

Austurfrétt óskar Davíð Þór til hamingju með starfið, en það veitist frá 15. september næstkomandi.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.