Mikilvægt að stíga út fyrir landamörkin

„Þetta er ótrúlega spennandi, ég vissi alveg að þetta væri það, en ekki svona,“ segir Berglind Häsler, ferðaþjónustubóndi í Havarí á Karlsstöðum í Berufirði. Havarí er eitt tíu fyrirtækja sem tekur þátt í Startup Tourism í ár.


Startup Tourism er tíu vikna viðskiptahraðall í umsjá Startup Iceland og Íslenska ferðaklasans, sérsniðinn að þörfum nýrra fyrirtækja í ferðaþjónustu. Verkefninu er ætlað að veita þátttakendum faglega undirstöðu og hraða ferlinu frá því að hugmynd fæðist þar til viðskipti taka að blómstra.

Tíu teymi hafa verið valin til þátttöku í hraðalinn, en alls bárust 113 umsóknir að þessu sinni sem er 20% aukning á milli ára. Óskað var eftir eftir lausnum sem gætu fjölgað afþreyingarmöguleikum í ferðaþjónustu á Íslandi, styrkt innviði greinarinnar og stuðlað að dreifingu ferðamanna um allt land, allan ársins hring. 

Havarí það eina á Austurlandi að þessu sinni, en hópurinn sem kemur vítt og breitt af landinu vinnur bæði að tæknilausnum á sviði ferðaþjónustu og nýjum eða betri afþreyingarmöguleikum.

Í tíu vikur fá forsvarsmenn fyrirtækjanna tækifæri til að þróa áfram viðskiptahugmyndir sínar undir leiðsögn reyndra frumkvöðla, fjárfesta, lykilaðila innan ferðaþjónustunnar og annarra sérfræðinga þeim að kostnaðarlausu. 


Markmiðið að styrkja það sem fyrir er

„Ég er bara sest á skólabekk í borginni þar sem ég verð næstu tíu vikurnar. Þetta er alveg ótrúlega spennandi, við erum á fyrirlestrum og fáum leiðbeinendur úr atvinnulífinu til þess að gefa okkur góð ráð, hausinn á mér er að springa af öllum þessum vísdómi,“ segir Berglind hlæjandi.

„Markmið okkar með þátttöku í þessu verkefni er að styrkja fyrirtækið og koma því í betri rekstur - ná betur utan um það sem við erum með fyrir. Reksturinn er margslunginn og fjölbreyttur þannig að það er kærkomið að fá aðstoð frá þeim sem reyndari eru í því að skerpa sýn og skera af vankanta.

Það er ótrúlega dýrmætt tækifæri fyrir bónda að austan eins og mig að fá tækifæri til þess að stíga út fyrir landamörkin og fá tíma og svigrúm til að fókusa á reksturinn og markaðssetninguna en við höfum átt í fullu fangi með framkvæmdir og að koma rekstrinum á fót.

Mig hefur lengi langað að taka viðskiptafræði eða MBA nám en þetta svalar þeim þorsta alveg í bili og bara frábært að fá tækifæri til þess að leggja sitt verkefni á borðið og geta fengið hjálp með akkúrat það sem vantar, því það þurfa ekki allir að finna upp hjólið. Við erum líka alltaf að vinna með einhverjar nýjungar sem verður gaman að segja frá og kynna í lok þessa verkefnis.“


Kærkomið tækifæri fyrir mæðgurnar

„Svo er þetta líka kærkomið persónulegt tækifæri fyrir mig til hanga með dóttur minni sem býr í Reykjavík. Við sem búum út á landi þurfum oftar en ekki að sjá á eftir unglingunum okkar að heiman allt of snemma. En svo verður frábært að koma aftur heim uppfull af nýjum hugmyndum þegar allt er að fara af stað eftir veturinn.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.