Orkumálinn 2024

Mikill áhugi heimamanna á beina fluginu

Ferðaþjónustufyrirtækið Tanni Travel fékk hæsta styrkinn úr Uppbyggingarsjóði Austurlands til markaðssetningar beins flugs milli Egilsstaða og London Gatwick þegar úthlutað var úr sjóðnum í síðustu viku. Verkefnastjóri segist finna mikinn áhuga Austfirðinga á fluginu og þeir séu farnir að bóka ferðir.


„Þessi styrkur hjálpar okkur við að markaðssetja flugið þannig að það verði til framtíðar. Við viljum að þetta flug verði aftur eftir ár en til þess þurfum við að vinna heimavinnuna okkar,“ sagði Hildigunnur Jörundsdóttir hjá Tanna Travel.

Fyrirtækið fékk 3,5 milljóna styrk til að vinna að framgangi flugsins. Til þessa hefur mest athygli verið á fluginu vegna þeirra ferðamanna sem það kann að færa inn á Austurland en Tanni sér um sölu flugsins hérlendis fyrir þá sem vilja fljúga út. „Nýtingin þarf að vera í báðar áttir. Það er gert ráð fyrir ákveðnum fjölda af svæðinu í hverju flugi.“

Selja þægindi

Hægt er að finna ódýrari flug til Englands í gegnum Keflavík en hreinn verðsamanburður segir ekki alla söguna að mati Hildigunnar. „Við erum að selja ákveðin þægindi, að geta farið beint að heiman og lent í Evrópu að kvöldi til. Það einfaldar ferðalagið.“

Tilkynnt var um flugið í byrjun október og segir Hildigunnur að Austfirðingar séu nú að taka við sér í bókunum. „Við finnum mikinn áhuga en það er enn fullt af lausum sætum. Fólk er á fullu að bóka þessa dagana og það gleður okkur að finna að fyrirtæki og hópar nýta sér flugið.“

Salan að fara af stað ytra

Flestar bókanirnar koma að austan en Tanni starfar að fluginu hér heima með Fjallasýn á Húsavík. Markaðssvæðið er því mun stærra. Frá Gatwick-flugvelli er síðan í boði fjöldi flugleiða áfram út í heim. „Við erum sístækkandi ferðaskrifstofa,“ segir Hildigunnur.

Úti í Englandi er síðan búið að leggja í mikla markaðsvinnu á vegum ferðaskrifstofunnar Discover the World sem stendur að baki fluginu. „Okkur heyrist að það sé þó nokkuð um bókanir frá Bretlandi en við höfum samt ekki almennilegar tölur þar um.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.