Margir bændur í Fljótsdal báru ekki sitt barr eftir riðuniðurskurðinn

Búskapur í Fljótsdal hefur ekki enn náð sér á strik eftir allsherjar niðurskurð á sauðfé vegna riðu fyrir um aldarfjórðungi. Búskapur lagðist af og einstök torfhús voru jöfnuð við jörðu.


„Þetta var óskaplegt áfall, líklega það mesta frá upphafi landnáms á þessu svæði,“ sagði Helgi Hallgrímsson, fræðamaður á Egilsstöðum við kynningu á nýútkominni bók sinni, Fljótsdælu í gær. Í bókinni er farið yfir þróun mannlífs og staðhætti í Fljótsdalshreppi.

Eftir mikla baráttu við riðuveiki á níunda áratugnum var árið 1989 gripið til þess örþrifaráðs að skera niður allt fé milli Lagarfljóts/Jökulsár í Fljótsdal og Jökulsár á Dal. Það hafði mikil áhrif á landbúnað á svæðinu sem Helgi telur hafa komið harðast niður í Fljótsdal.

Búskapi hætt á helmingi bæja

„Ég held að margir bændur hafi ekki aldrei borið sitt barr eftir þetta. Sumir misstu jafnvel heilsuna og urðu skammlífir sem er svo sem skiljanlegt. Kindurnar voru vinir bændanna. Menn þekktu þær persónulega og höfðu jafn á hverri kind. Þetta er ekki auðvelt að skilja fyrir nútímafólk sem er ekkert inni í þessu fjárstússi.

Þetta leiddi til þess að hefðbundnum búskap var hætt á næstum helmingi bæja og það hefur ekkert breyst síðan þá. Á nokkrum bæjum var tekinn upp skógræktarbúskapur sem var engan vegin nægilegur til að tekna sem þurfti en var betri en ekkert.“

Mikil menningarverðmæti í jörðina

Um leið og féð var skorið þurfti að taka húsakostinn til bænanna. Þrjár aðferðir voru í boði: að taka húsin úr notkun og girða þau af, að sótthreinsa þau og klæða með steypu eða timbri. Flestir völdu hins vegar að jafna húsin við jörðu og hylja þau með mold.

„Þar með fóru mikil menningarverðmæti forgörðum, líklega þau mestu frá upphafi byggðar á þessu svæði. Það var óvenjumikið af torfhúsum í Fljótsdal og þau höfðu þróast í þúsund ár á máta sem sennilega var einstakur á Íslandi.“

Sumarið 1990 fór Helgi um Fljótsdalinn með forstöðumanni safnastofnunar til að mynda húsin og skrifa lýsingar á þeim. Það efni er meðal annars nýtt í Fljótsdælu.

Bæklingurinn sem varð að bók

Helgi ólst upp á Arnheiðarstöðum og Droplaugarstöðum yst í Fljótsdal. Hann stundaði síðar nám á Eiðum, við Menntaskólann á Akureyri og í Þýskalandi og bjó nyrðra áður en hann fluttist austur í Egilsstaði árið 1987.

Skömmu eftir heimkonuna var hann fenginn til að skoða allar skógræktarjarðir á Héraði, sem voru flestar í Fljótsdal og þannig kynntist hann heimasveitinni á ný.

Meginmál Fljótsdælu er tæpar 500 blaðsíður. Hún byrjaði hins vegar sem 16 síðna bæklingur sem Helgi ritaði fyrir aðalfund Náttúruverndarsamtaka Austurlands sumarið 1991 þegar framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun voru nýhafnar. Bæklingurinn var fljótlega endurútgefinn tvöfalt lengri.

Fljótsdalshreppur styrkti útgáfu bókarinnar og fengu ábúendur á jörðum þar afhend eintök af bókinni síðastliðinn sunnudag.

Rannsóknir Helga í aðdraganda virkjunar í Fljótsdals, á riðuniðurskurðinum og skógarjörðunum mynda hryggjarsúluna bókinni. Ýmislegt hefur þó bæst við.

„Ég var ekki maður til að skera bókina niður þannig hún væri í hæfilegri stærð. Þetta verða kaupendur að sitja með og borga fyrir og ég verð bara að biðjast afsökunar,“ sagði hann kíminn í gær.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.