„Mannvirki sem skipta okkur miklu“ - Myndir

Snjóflóðavarnagarðarnir undir Tröllagili, ofan Neskaupstaðar, voru formlega vígðir af umhverfisráðherra í gær. Forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar segir mannvirkin skipta íbúa Neskaupstaðar miklu máli.


„Þessi mannvirki skipta okkur sem búum hér, þekkjum og höfum verið minnt á ógnarkrafta náttúrunnar, svo miklu máli,“ sagði Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar og íbúi í Neskaupstað við vígsluna í gær.

Framkvæmdir við garðana hófust árið 2008 en þeir eru gríðarleg mannvirki. Garðarnir samanstanda af 660 metra löngum varnargarði, 420 löngum leiðigarði og 24 snjóflóðavarnakeilum. Í görðunum eru 1900 metrar af stoðvirkjum úr stáli.

Heildarkostnaður við þá er 2,1 milljarður króna og var Héraðsverk aðalverktaki.

Eftir snjóflóðin á Vestfjörðum um miðjan tíunda áratuginn var ráðist í mikla uppbyggingu varna gegn snjóflóðum víða um land. Garðarnir sem nú voru opnaður eru númer tvö í röðinni á Norðfirði en árin 1999-2002 var unnið að snjóflóðavarnargörðum undir Tröllagili.

Framundan er vinna við varnir undir Urðarbotnum og Nes- og Bakkagiljum. Búið er að meta umhverfisáhrif beggja garðanna og er hönnun varnanna undir Urðarbotnum hafin. Vonir standa til að hægt verði að byrja framkvæmdir þar árið 2019.

Rýming á að heyra sögunni til

Meðal þess sem gert var eftir snjóflóðin á Vestfjörðum var uppbygging ofanflóðasjóðs sem styrkti gerð garðanna á Norðfirði. Aðkoma umhverfisráðuneytisins hefur einkum verið í gegnum sjóðinn.

Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra, sagðist vonast til að garðarnir færðu íbúum Neskaupstaðar aukna öryggistilfinningu. „Rýming húsa í þéttbýli á að heyra til undantekninga eftir að varnamannvirki hafa verið reist. Hér eru mannvirki tilbúin að takast á við hlutverk sitt þannig þið getið sofið rótt á ykkar heimilum þótt ofankoma sé mikil.“

Einhverjir hafa deilt á garðana vegna þeirra miklu umhverfisáhrifa sem þeir hafa. Jón Björn sagði að þrátt fyrir lítill efi verið um að rétt væri að byggja garðana. „Við fundum að af öryggi gefur maður aldrei afslátt.“

Í kringum og á görðunum hafa verið gerðar gönguleiðir þannig þeir nýtast vel til útivistar. Á meðan vígslunni í gær stóð fór fram árlegt garðahlaup íþróttafélagsins Þróttar sem ráðherrann ræsti. Í boði voru fjórar mislangar hlaupaleiðir sem allar fóru eftir leiðum sem orðið hafa til við framkvæmdirnar.

„Allar þessar gönguleiðir skapa fyrir fólkið möguleika á að nýta og njóta svæðisins sem er ánægjulegur kaupbætir,“ sagði Jón Björn.

Snjoflodavarnagardar Nesk 0001 Web
Snjoflodavarnagardar Nesk 0005 Web
Snjoflodavarnagardar Nesk 0007 Web
Snjoflodavarnagardar Nesk 0011 Web
Snjoflodavarnagardar Nesk 0016 Web
Snjoflodavarnagardar Nesk 0018 Web
Snjoflodavarnagardar Nesk 0021 Web
Snjoflodavarnagardar Nesk 0022 Web
Snjoflodavarnagardar Nesk 0028 Web
Snjoflodavarnagardar Nesk 0036 Web
Snjoflodavarnagardar Nesk 0039 Web
Snjoflodavarnagardar Nesk 0044 Web


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.