Orkumálinn 2024

„Makaval hefur sannarlega áhrif á búferlaflutninga fólks“

„Meginmarkmið rannsóknarinnar var að skoða hvaða áhrif það hefur á búsetu fólks finni það sér maka annars vegar innan og hins vegar utan heimabyggðar,“ segir Kolbrún Ósk Baldursdóttir, frá Djúpavogi. Hún skilaði af sér lokaritgerð í BA-námi sínu við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri um þessi mál nú í vor.
Langaði til að takast á við eitthvað mjög krefjandi í lokaverkefni sínu

Kolbrún Ósk er fædd og uppalin á Djúpavogi en býr nú á Akureyri þar sem hún stundar rannsóknartengt meistaranám við Háskólann á Akureyri. „Í BA-náminu mínu kynntist ég áhugaverðu rannsóknarsviði sem kallast Byggðafræði eða Rural studies. Í lokaverkefni mínu langaði mig til þess að takast á við eitthvað mjög krefjandi og rannsaka nokkuð sem hafði fram að þessu lítið eða ekkert verið rannsakað. Einnig langaði mig til að tengja lokaverkefnið mitt við heimaslóðir mínar svo úr varð þessi litla rannsókn, sem síðan var ekkert svo lítil þegar upp var staðið,“ segir Kolbrún.

Sjávarþorp á Austurlandi voru tekin sérstaklega fyrir í rannsókninni

Í rannsókn Kolbrúnar voru sjávarþorp á Austurlandi tekin sérstaklega fyrir og borin saman við önnur svæði á Austurlandi og jafnframt stærstu þéttbýliskjarna landsins, Akureyri og höfuðborgarsvæðið. „Niðurstöðurnar fyrir Austurland eru fremur afgerandi og má draga þrjár meginályktanir af þeim. Í fyrsta lagi eru um það bil helmingslíkur á því að einhleypur karlmaður í litlu þorpi haldi þar kyrru fyrir í heimabyggð, á meðan einungis tæplega þriðjungur kvenna heldur kyrru fyrir. Konurnar fara í stórum stíl til höfuðborgarsvæðisins. Í öðru lagi, finni fólk í minni þorpum sér maka utan sinnar heimabyggðar eru miklar líkur á því að það yfirgefi byggðina eða um það bil 70-85% líkur. Í þriðja lagi, finni fólk sér maka innan sinnar heimabyggðar eru yfirgnæfandi líkur á því að viðkomandi haldi kyrru fyrir í sinni heimabyggð með maka sínum,“ segir Kolbrún.

Makaval hefur sannarlega áhrif á búferlaflutninga fólks

Það gefur því augaleið að niðurstöður þessarar rannsóknar gefa sérstaklega til kynna að makaval hefur veruleg áhrif á framtíðarbúsetu fólks og þá sérstaklega þeirra sem eru búsettir í dreifbýli. „Meginniðurstöður rannsóknarinnar eru þær að finni fólk í dreifbýli eða þéttbýli sér maka innan sinnar heimabyggðar eru mjög miklar líkur á því að það haldi kyrru fyrir í sinni heimabyggð. Finni manneskja í dreifbýli sér maka utan heimabyggðar eru talsvert miklar líkur á því að hún yfirgefi sína heimabyggð en finni manneskjan í þéttbýli sér maka utan sinnar heimabyggðar eru hins vegar líkurnar á því að hún haldi kyrru fyrir mjög miklar. Einnig kom það fram í niðurstöðunum að einhleypir í þéttbýli eru mjög líklegir til að halda kyrru fyrir í heimabyggð á meðan einhleypir í dreifbýli, sérstaklega konur, eru líklegar til þess að yfirgefa sína heimabyggð,“ segir Kolbrún. Svo virðist því sem íbúar í stórum þéttbýliskjörnum haldi almennt kyrru fyrir óháð því hvort þeir eru einhleypir, eigi maka frá sömu heimabyggð eða maka frá öðru byggðarlagi. Makaval hefur því ólík áhrif á framtíðarbúsetu fólks eftir því hvort það er búsett í þéttbýli eða dreifbýli og eru áhrifin neikvæðari fyrir íbúaþróun í dreifbýli. „Makaval er svo sannarlega enn ein forsendan sem legið getur að baki búferlaflutningum fólks úr dreifbýli í þéttbýli,“ segir Kolbrún.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.