„Maður leyfir sér að halda að þeir hafi gefið sér niðurstöðuna fyrst“

Bæjarfulltrúar á Fljótsdalshéraði eru gagnrýnir á skýrslu Vegagerðarinnar vegna flutnings vegnúmersins 1 af Breiðdalsheiði niður á Suðurfjarðaveg. Þá óttast þeir að lítið hald sé í yfirlýsingum ráðherra um að heilsársvegur yfir Öxi sé forgangsverkefni.

„Manni er ákveðið brugðið við að sitja við þetta borð á móti fulltrúum Vegagerðarinnar og þá rekur í vörðurnar um hvernig eigi að svara fyrir þessa hluti.

Hvernig í ósköpunum má það vera að stofnun eins og Vegagerðin fari ekki faglega í þessa hluti? Maður leyfir sér að halda að þeir hafi gefið sér niðurstöðuna fyrst og svo reynt að fylla í eyðurnar,“ sagði Gunnar Jónsson, formaður bæjarráðs Fljótsdalshéraðs á fundi bæjarstjórnar nýverið.

Þar var til umræðu staðfesting á ályktun bæjarráðs sem snéri annars vegar að færslu hringvegarins, hins vegar vegunum yfir Öxi og í botni Skriðdals.

Telja Vegagerðina ekki hafa vandað til verka

Í ályktunni er skýrsla Vegagerðarinnar, sem lá að baki ákvörðun um færslu þjóðvegar 1, gagnrýnd. Hún byggi á fjögurra ára gömlum umferðartölum og áherslur vegna landbúnaðar og stóriðju standist tæpast skoðun.

Þá er lýst furðu á að ekki hafi verið orðið við ósk Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, sem upphaflega báðu um mat Vegagerðarinnar, að niðurstöður matsins yrðu kynntar samgöngunefnd SSA. Lýst er vonbrigðum með að „virt ríkisstofnun eins og Vegagerðin skuli ekki vanda betur til verka þegar að unnið er að jafn veigamiklu verkefni og þarna var til umfjöllunar.“

Vegagerðin staðfestir ekkert um Axarveg

Samgönguráðherra tilkynnti ákvörðun sína á þingi SSA í lok september. Við sama tækifæri lýsti hann því yfir að heilsársvegur yfir Öxi væri forgangsatriði og farið yrði í uppbyggingu vegarins í botni Skriðdals á næsta ári.

Í kjölfar orða ráðherrans hefur bæjarráð Fljótsdalshéraðs sent bæði ráðuneytinu og Vegagerðinni bréf til að afla staðfestingar á að vegurinn sé kominn framarlega í forgangsröðina. Þá mættu fulltrúar Vegagerðarinnar austur til fundar með bæjarráðu og fulltrúum Djúpavogshrepps.

Miðað við bókanir bæjarráðsins er ekkert enn fast í hendi um vegina. Svarið frá Vegagerðinni var á þá leið að ekki sé hægt að staðfesta verkefnin þar sem hvorki liggi fyrir fjárlög næsta árs né endurskoðuð samgönguáætlun.

Yfirlýsingar ekki staðist árum saman

Gunnar segir það ekki skrýtið að kallað sé eftir staðfestingum á að orðin standi. „Það er ekki notalegt að þurfa að segja það en því miður höfum við árum saman heyrt ýmsar yfirlýsingar sem standast síðar ekki, ekki síst þegar kemur að samgöngumálum. Það er engin tilviljun að samþykktir aðalfunda SSA eru keimlíkar síðasta áratuginn.

Auðvitað vekur það furðu okkar að Vegagerðin geti ekki staðfest þessa stöðu, ekki síst með Skriðdalsbotninn sem strangt til tekið á að fara í framkvæmdir á næsta ári.“

Gunnar kom einnig inn á veginn til Borgarfjarðar sem hann kallaði „holótt drullusvað.“ Við núverandi ástand yrði ekki unað og þess vegna væri reynt að knýja á um svör. „Þegar nýir stjórnarherrar koma verður að byrja á að ræða við þá og ef þeir sömu verða áfram veitir ekki af að ræða málin áfram.“

Öfl innan Austurlands takast á við okkur

Gunnar sagði mikilvægt að halda annarri leið inn í fjórðunginn að sunnanverðu opinni. Vegurinn um Breiðdalsheiði og Skriðdalsbotninn væri í raun ófær og ekki bjóðandi. Þá lýsti hann efasemdum um að Suðurfjarðavegur réði við þá umferð sem honum er ætlað að gera.

„Talandi um öryggi þá eru skriður þar og ýmislegt sem hefur lokast. Þess vegna skiptir máli að hafa tvær leiðir opnar og því erum við að slást í þessu.

Þetta er gífurlegt hagsmunamál og það er nöturlegt að menn átti sig ekki á að þetta er hagsmunamál Austurlands alls. Ég skil ekki hvers vegna menn slást gegn því og það eru öfl innan Austurlands sem takast á við okkur.“

Á fundinum var Gunnar spurður hvort breyting væri framundan á vetrarþjónustu um Skriðdal og Breiðdalsheiði. Hann svaraði því að skilningur þeirra fulltrúa sem sátu fundinn á svörum Vegagerðarinnar væru að ekki yrði um breytingu að ræða.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.