Lokun Húsó: Er stefnan virkilega að ýta hverjum einasta nemenda í bóknám?

Tveir þingmenn Norðausturkjördæmis ræddu stöðu Hússtjórnarskólans á Hallormsstað við upphaf þingfundar í morgun. Kallað var eftir svörum ráðherra um stöðu stutts starfsnáms á framhaldsskólastigi.


Skólanefnd tilkynnti í gær að ekki yrði boðið upp á nám við skólann næsta vetur þar sem ekki fengist endurnýjaður rekstrarsamningur við ráðuneyti menntamála sem teldi skólann ekki uppfylla kröfur aðalnámskrár.

„Hvernig má það vera að hæstvirtur ráðherra mennta- og menningarmála átti sig á því í maílok 2017 að skóli sem starfað hefur frá árinu 1930 passar ekki inn í aðalnámskrá framhaldsskóla? Er skólanum virkilega ekki gefið svigrúm til að laga það sem upp á vantar? Hvað með meðalhóf í stjórnsýslunni?“

Sorgarsaga

Að þessu spurði Líneik Anna Sævarsdóttir, varaþingmaður Framsóknarflokksins undir liðnum störf þingsins. Líneik Anna situr á þingi þessa vikuna í fjarveru Þórunnar Egilsdóttur sem er í sauðburði.

Líneik Anna, sem er fyrrum skólastjóri á Fáskrúðsfirði en réði nýverið á menntasvið Austurbrúar, benti á að námið á Hallormsstað hefði nýst vel sem undirbúningur fyrir annað formlegt nám sem og til að búa ungt fólk undir lífið.

Það var Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður vinstri grænna, sem hóf umræðuna í morgun og kallaði ákvörðunina „sorgarsögu.“ Hún kemur líkt og Líneik úr skólakerfinu og var náms- og starfsráðgjafi í Menntaskólanum á Tröllaskaga áður en hún settist á þing.

Er þetta lausnin gegn brottfalli?

Báðar töldu ákvörðunina ganga gegn hugmyndum um fjölbreytni í námi. „Er það virkilega markmið yfirvalda menntamála að draga eins mikið úr valkostum nemenda og mögulegt er og ýta hverjum einasta nemanda í bóknám, hvort sem það hentar eða ekki? Er það virkilega helsta ráðið við brottfalli úr framhaldsskólanum?“ spurði Líneik.

Bjarkey sagði forsvarsmenn skólans hafa kynnt fyrir ráðuneytinu hugmyndir til að breyta náminu til að laða að nemendum.

„Það hefur ekki fengið mikinn hljómgrunn í mennta- og menningarmálaráðuneytinu þar sem það hefur ekki fallið undir hin formlegu, hefðbundnu bóklegu fög. Á sama tíma tölum við gjarnan um að við þurfum að auka verknám.“

Hver er staða annarra námsleiða?

Hún sagði ráðherra hafa kosið að nýta sér ekki þekkingu sem væri til staðar sem nýst gæti sem undirstaða fyrir frekara matreiðslunám, þjónustu eða í ferðaþjónustu sem full þörf sé á í dag.

Líneik kallaði enn fremur eftir svörum um stöðu annarra svipaðra skóla. „Hver er þá staða Hússtjórnarskólans í Reykjavík nú í maílok 2017 og annars stutts starfsnáms á framhaldsskólastigi? Við þessu hlýtur hæstvirt allsherjar- og menntamálanefnd að þurfa að fá svör áður en þingi lýkur.“

Fleiri brostin fyrirheit

Bjarkey benti hins vegar á að menntamálaráðuneytið væri í vandræðum með að standa við fleiri skuldbindingar gagnvart Austfirðingum, en eins og Austurfrétt greindi frá í gær eru engar vísbendingar í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar um að til standi að efna loforð um byggingu menningarhúss á Egilsstöðum.

„Á sama tíma og verið er að leggja niður starfsemi skólans á líka að svíkja loforð um uppbyggingu menningarhúss, en fyrrverandi menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, Illugi Gunnarsson, flaug í skyndi austur á Egilsstaði og undirritaði viljayfirlýsingu þar sem fjármagni var lofað á næsta ári í byggingu þess. Hvað er menning ef ekki hússtjórnarskóli, meðal annars?“

Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis, tók ekki þátt í umræðunum í morgun.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.